
„Brosað gegnum tárin“ býr yfir ótal fróðleiksmolum eða fegurðarmolum eins og þeir voru kallaðir á sínum tíma. Hér er brot af þeim bestu.

María Guðmundsdóttir, úngfrú Ísland, 1961, var ákaflega vel mæld af dómnefndinni. 174 cm á hæð, brjóstmál 90, mitti 56, mjaðmir 90, ökkli 21 cm og háls 31. Síðastnefnda talan vekur þá spurningu hvort um sé að ræða hæð eða gildleika hálsins.Í viðtali við dómnefndarmann kom fram að nefndin hefði skoðað að auki tær, hendur og fætur, háralit, vatteringar í sundbolum og tennur. Þessari nákvæmu skoðun stjórnaði Jón Eiríksson læknir. María starfaði síðan lengi sem fyrirsæta og ljósmyndari.

Lengi vel fólst undirbúningur stúlknanna einkum í gönguæfingum á háhæluðum skóm. 1987 hafði líkamsrækt bæst við, þol-og öndunaræfingar ásamt nuddi og þriggja sólarhringa föstu fyrir keppnina sjálfa. Stúlkurnar fengu góðan fyrirvara og nokkra mánuði til undirbúnings sem þær notuðu til að ná af sér nokkrum aukakílóum og læra að ganga á háhæluðum skóm..“
Reynslusaga frá 1990:
„Við gegnum sem sagt fram og til baka, hlið við hlið, horfðum á hvor aðra og okkur sjálfar á sunbolum og hælaháum skóm. Sumbolirnir voru límdir með teppalími, svo að þær færðust ekki úr stað. Við lærðum að brosa, með því að smella tungunni upp í góminn og þrysta henni þar, svo að við titruðum ekki í framan á meðan við brostum. Við lærðum að labba mjúklega í annarlegri samsetningu sundbols og 10 cm hæla, brosa án þess að titra öll í framan, svo lærðum við náttulega að sprengja e-vítamínbelga og þekja þeim á andlitið svo að húðin fengi sinn raka. Við lærðum líka að við ættum að vera afskaplega brúnar. Að baða hárið okkar upp úr ediki svo það fengi glansa. Við lærðum að labba lítil geysuskref í kjólunum, sem einnig vorum límdir á okkur á hinum og þessum stöðum. Við vorum ekki allar vinkonur, ónei. Barist var um fötin fyrir tískusýninguna. Sumar voru frekari en aðrar, og neituðu að ganga í þeim fötum sem þeim fannst að klæddu sig ekki. Baktalið var einkar frjótt. Sú sem var sigurstranglegust var lögð í þögult/baktalandi einelti, og hún dæmd út frá hverjum einasta hlut sem hún gerði. Við brostumhins vegar fögru brosi til hverrar annarrar og sögðum í viðtölum að við værum perluvinkonur og að þessi keppni færði manni aukið sjálfstraust. En við hverja er rætt. Þær sem vinna. Hvað með hinar sem vinna ekki neitt, eru ekki nógu „Fallegar“ og frambærilegar samkvæmt dómurunum??? Útlit er eitthvað sem við fæðumst með, við getum náttúrulega gert ýmisslegt til þess að breyta því, og þá reynum við að fylgja því sem markaðurinn segir að sé „fallegt“. Stúlkur sem eru dæmdar út frá því sem þær fæðast með og geta ekki svo auðveldlega breytt, er mannskemmandi, nema kanski fyrir þær sem fá viðurkenningu um að þeirra útlit sé eftirsóknarvert. Þær sem komast ekki í vinningsæti, eru „Of frekar“, „of litlar“ „of feitar“, hafa einhvern stimpil á sér eins og „drekkur of mikið“, „er lauslát“ osfrv. Kanski var þetta bara í þeirri keppni sem ég var í. En í einhver ár á eftir aðstoðaði ég aðrar stelpur, að velja rétt föt, labba rétt, tala rétt og svo videre.Ef það er eitthvað sem ég skammast mín fyrir og vildi að ég gæti breytt, þá er það þetta. Að vera svo samdauna viðteknu verðgildi konunnar að ég tók þátt í fegurðarsamkeppni og ekki nóg með það, hvatti aðrar til að gera það sama“

Brynja X
Ekki ertu neitt svo beinaber
brjóstin visin né fölar kinnar
skoða ég oft á skjánum hér
skínandi fegurð æsku þinnar
utan við gler sem góni á
gullfisk í búri… Móki, skynja
einhverja stærð sem engir sjá
óþekkta stærð sem hylur brynja.
Þórarinn Eldjárn yrkir þetta um Brynju X Vífilsdóttur, ungfrú Reykjavík 1993.

Ungfrú Reykjavík og Davíð Oddsson


Árið 1998 var Díönnu Dúu Helgadóttur vikið úr fegurðarsamkeppni Íslands þar sem hún hafði setið fyrir hjá tímaritinu Playboy. Hún undi því ekki, kærði úrskurðinn til kærunefndar jafnréttismála og benti á að hr. Ísland 1996 hefði setið fyrir á djörfum myndum í B&B. Mótrök keppnishaldara voru að í alþjóðlegum fegurðarkeppnum mættu þátttakendur ekki hafa birst á nektarmyndum. Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði keppnishöldurum í hag en tók fram í lok greinargerðar sinnar: „Þá væri það ekki í anda almennra jafnréttissjónarmiða að kærunefndin leitaðist við að tryggja réttinn til að gera nekt kvenna að söluvöru.“

Árið er 2021 og enn er keppt í fegurð, framkomu, göngulagi og vel orðuðum svörum við spekingslegum spurningum. Sigurvegarinn var sú sem hafði mesta reynsluna, enda að keppa í sinni fimmtu keppni. Það staðfestir að æfingin skapar meistarann.
Fyrirvari: Höfundur þessarar samantektar hefur tvívegis sótt um þátttöku í fegurðarsamkeppni en fengið höfnun í bæði skiptin.