Síðuhöfundur, ritstjóri, eigandi, ábyrgðarmaður, prókúruhafi, framkvæmdastjóri og ímyndarhönnuður þessarar síðu hefur sjaldan sett ljós sitt undir mæliker. Hann er Vestfirðingur að mestu leyti, ekki eins mikill sveitamaður og hann þykist vera, framsóknarhatari til margra ára og þykir stundum ágætt að tala um sig í þriðju persónu eins og þessar línur sýna.
Höfundur hefur B.Ed. próf frá KHÍ og var kennari við Iðnskólann í Hafnarfirði (1974-75), Grunnskóla Reyðarfjarðar (1975-76), Glerárskóla á Akureyri 1979-81), Ljósafossskóla í Grímsnesi (81-83), Vesturbæjarskóla í Reykjavík (83-85) og Ölduntúnsskóla í Hafnarfirði frá 1985, þar sem hann hélt út í 12 ár áður en einkageirinn bauð betur. Frá 1986 starfaði hann við þýðingar með kennslu en frá 1995 hefur hann helgað sig þessu göfuga hlutverki og þýðir jöfnum höndum tyrfnar skýrslur og sértækt fræðsluefni, kvikmyndir og þætti fyrir sjónvarp, léttmeti og ljóð fyrir sjálfan sig og aðra undir nafni Túnfiska s/f sem hann stofnaði með Matthíasi Kristiansen árið 1986.
Þeir sem vilja komast í hóp viðskiptavina, geta hringt í síma fyrirtækisins, 6617848, og verður höfundur þá fyrir svörum. Hann þykir blíðmáll.
Höfundur hefur svipuð áhugamál og fegurðardrottning, þ.e. lestur góðra bóka og ferðalög, ásamt líkamsrækt og almennri útlitsdýrkun.
Höfundi þykir gaman að hlaupa og hjóla. Hann er stjórnarmaður eða virkur félagi í mörgum félögum sem tengjast íþróttum. Þetta eru UMFR36, Hjólreiðafélagið Bjartur, 3SH, Ofurhlauparáð FRÍ, Þríþrautarnefnd ÍSÍ (formaður), félag 100 km hlaupara á Íslandi, Félag Maraþonhlaupara og Reiðhjólafélagið Súsa.
Höfundur á kött. Á heimilinu er annar köttur sem höfundur á hlut í.
Höfundur tilheyrir góðri fjölskyldu sem í eru bæði börn og barnabörn. Þau síðastnefndu eru í miklum hávegum hjá höfundi.
Höfundur býr í Hafnarfirði og er þar aðfluttur andskoti.
Höfundur var framsóknarmaður í tvær vikur. Svo batnaði honum.
Höfundur er árrisull.
Höfundur drekkur ekki áfengi og hefur ekkert umburðarlyndi gagnvart reykingafólki.
Höfundur hefur lengi rekið hjáfræðaþjónustu, ásamt hugsanaráðgjöf og almennri skoðanamyndun, í samstarfi við félagsmeinafræðinginn Má Högnason, sem útskrifaðist fyrstur manna í þessari sérgrein frá háskólanum í Lundi í Svíaríki.Orkusteinasalan er nú aðeins opin á sunnudögum eftir hádegi. Gælusteinar eru uppseldir.
Höfundur hefur séð álfa og huldufólk. Aðallega eftir pöntun.
Höfundur hefur netfangið gisli(hjá)internet.is.
Höfundi er ljóst að hér mætti segja fleira en þykir þetta nóg í bili. Ekki er útilokað að höfundur bæti við upplýsingarnar, telji hann upp á vanta.
Að gefnu tilefni tekur höfundur fram að í skoðanaskiptum þykir alltaf betra að fara frekar í boltann en ekki manninn.
Gert í Hafnarfirði eftir hrun.
Gísli Ásgeirsson