Bloggsálmur

Haldið til haga frá áramótum 2007
„Í heimsókn hjá okkur yfir hátíðarnar er doktorinn sem við köllum jafnan Rigor Mortis okkur til skemmtunar. Dr. Rigor er annars kanadískur fræðimaður sem kemur stundum á klakann til að sitja á Landsbókasafninu, taka í nefið og spjalla við bændur og búalið. Á kvöldin skemmtir hann okkur með sögum frá gamalli tíð. Hann talar prýðilega íslensku og hefur haldið henni við með hjálp netsins og tíðra heimsókna á elliheimili í Manitoba.
Dr. Rigor er mikill áhugamaður um íslenskt samfélag og þá einkum bloggsamfélagið en síðan hann lærði á tölvu, fer skaðlega mikill tími hans í blogglestur. Þessi áhugamál mætast reyndar skemmtilega í áramótauppgjöri hans en hann hefur lengi dundað sér við að yrkja druslur. Drusla er kvæði sem er ort við sálmalag og sungið í stað sálmsins til að jaska ekki guðsorðinu út að óþörfu. Hann féllst góðfúslega á að deila nokkrum erindum af þessari löngu druslu með þjóð sinni. Kann ég honum bestu þakkir fyrir vikið. Sálmurinn er alþekktur, eins og fram kemur í vísuninni í fyrstu ljóðlínunum. Davíð hefði orðið stoltur.

Ég blaða í blöðum mínum
við bloggsins helga tré
með mærðar löngum línum
læt ég fólki í té
fró og friðarstundir…
-frægðarinnar nýt
þó búi alltaf undir
eðli kennt við skít.

Sjúkdómsbloggin svala
sorgarþörf og neyð
og heimsóknirnar hala
heilmargar um leið
í tómið tekst að fylla
tæpa dags um hríð
því bloggið endar illa
og alltaf tapast stríð.

Tindi núna næ ég
nokk með glæsibrag
flettingarnar fæ ég
fimm þúsund í dag
ótal knús og kossar
komment eru full
því heimskum gikki hossar
hégómi og bull.“

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.