Búnkerinn -drög að bálki

Már Högnason hefur tekið sér fyrir hendur þýðingarlegt stórvirki. Um er að ræða kvæðabálkinn Der Untergang sem byggir lauslega á síðustu dögum Foringjans og félaga hans í búnkernum. Talið er að samnefnd kvikmynd, sem var í sjónvarpinu á laugardaginn, sé að miklu leyti byggð á þessum bálki þótt víða sé vikið frá ljóðrænum tilþrifum hans, sem eru aðalsmerki höfundar.

Upphafið

Í prologus skyggnist höfundur yfir sögusviðið, dregur upp nístandi en áleitna mynd af morgunúðinni í höfuðstaðnum þar sem varla stóð steinn yfir steini eftir loftárásir bandamanna. Ekki fer á milli mála hve Traudl einkaritari er skáldinu ofarlega í huga því harmsaga hennar þennan dag tengir atburðina saman með átakanlegum hætti þannig að jafnvel harðsvíruðustu lesendur fella tár. Þótt þetta brot segi ekki mikið, gefur það fyrirheit um óbeina afleiðingu þess sem koma skal.

Maístjarna á Munchen skein
máninn góndi á Berlín
á skattholi Adolfs lá skyrta hrein
og skæslegar buxur úr terlín.

Morgunsúr Fuhrer úr rekkju reis
reikaði fram zu pissen
skvetti vatni á skegg og feis
skolaði munninn ein bischen.

Traudl hafði lagað te í glas
Tímann og Berliner Zeitung las.

Þegar hér er komið sögu, er hádegismatur á borð borinn í búnkernum og nasistar og aðrir setjast að málsverði. Vegna takmarkaðrar málakunnáttu er þýðingin frekar þýskuskotin en þar sem nú virðist vera í tísku að enskuvæða móðurmálið, gerir smá lágþýska ekkert til.

Í búnkernum ríkti bölsýnisúð
er byrjaði miðdagsátið
knockwurstið tuggið með köldum snúð
og kasúldið sáerkrátið.

Alvarlegt þótti Foringjans fas
-færði hann ritara blásýrugas.

Um lystina verður lítið ort
létu menn sækja þjóninn:
„Kaffe und judenkucher sofort
komdu með, árans dóninn.“

Þögul sat Traudl og Þórberg las
þæfði í lófanum blásýruglas.

Við eldhúsbekkinn stóð Eva Braun
upp þvoði kristalgläsen.
Hugsaði um stopult heimsins lán
og harmaði þetta wesen.

Skálmaði þangað Adolf inn
arminn um mitti lagði
kyssti á mjúka meyjarkinn
og mélkisulega sagði:

„Góðan daginn, mín gnädige Frau
glösin hættu að pússa.
Nú steðjar að búnkernum vítis vá
en við skulum spila rússa.“

Traudl að salerni trítlaði hratt
tók með sér kvolað Abendblatt.

Sjónvarpið góndi Göbbels á
gamlan, amrískan þriller
Magda sat frúarleg honum hjá
hélt á bók eftir Schiller.

Streittist Traudl við Sturm und Drang
og steinsmugukenndan Untergang.

Áfram heldur sagan af búnkerliðinu og kemur nú í ljós að Adolf á afmæli og upp á það var ætíð haldið með pomp og pragt. Foringinn var í eðli sínu stórt barn og vildi gera mikið úr deginum, bauð mörgum og þá var glaumur og gleði. Hugsanlega hefur skyggt á gleðina í þetta sinn að úr austri nálguðust Rússar og fyrir vestan var lið Bandamanna. Blondi sem nefnd er í kvæðinu, er tík Hitlers, sem jafnan svaf inni hjá eiganda sínum.

Í búnkernum liðið á fætur fór
-fallbyssur dundu í austri.
Burstaðir jakkar, buxur og skór
búið um gjafir í flaustri

Foringinn orðinn var 56
fiðringur altók kallinn.
Hann vildi kaffi og hundakex
handa Blondi í dallinn.

Traudl bar á varir bæheimskt gloss
á blöðrur teiknaði hakakross.

Lengra er verkið ekki komið en því verður lokið, rétt eins og Hitler lauk sínu verki í búnkernum.

4 athugasemdir við “Búnkerinn -drög að bálki

 1. En fasmót litla foringjans
  nú fylltist gljúfrum og dölum
  og allt í einu var andlit hans
  afmyndað af kvölum

  Vældi hann út í víðernið:
  Warum þraut svo harða?
  Þeyttist hann þvínæst á salernið.
  Því niðurgangur var það.

  Niðurgangsins napra leið
  nú verður rakin gjörla.
  Ekki er víst að önnur neyð
  öllu sé verri þeim Sörla.

 2. Þannig heldur bálkurinn áfram og höfundur Der Untergang lýsir því sem lengi hefur verið sveipað dularhjúpi, hvernig foringinn missti af sigri þýsku hersveitanna í heimstyrjöldinni vegna veikinda sem hingað til hafa legið í þagnargildi.

 3. Þakka þér fyrir það. Ég sé hinsvegar í endursýn að viðbót mín er óttalegur leir, úr takti við undanfarann og hálfgert alvöruleysi að auki, sem er ekki ofgott á okkar tímum þar sem nóg er af slíku. Þú gerðir vel í að eyða viðbótinni af þeirri auðmýkt sem gott fólk reynir að viðhafa andspænis skáldskap. Á hinn bóginn er það vissulega satt hjá þér að ekki skildi láta bálkinn óhreyfðan, slíka bálka á að klára ef maður vill sannarlega verða einhverju nærri um bönkermentalítet.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.