Britneyjarrímur

Það er gott að eiga sér áhugamál og gangast við þeim. Ég hef löngum afneitað áhuga á lífi fræga fólksins, þykist ekkert um það vita en með hjálp Manilow-heilkennisins setjast smáatriðin fyrir í hausnum eins og hver önnur óværa. Nóg um það.
Forðum daga fóru skáldin utan og fengu fæði og húsnæði hjá kóngum veturlangt fyrir kvæði sem þeir fluttu þeim. Sumir tvínýttu kveðskapinn meira að segja, fóru kónga á milli og kváðu. Þá vantaði tilfinnanlega fjölmiðla. Hér verður ekki gerð tilraun til að yrkja til þjóðhöfðingja, heldur er ætlunin að mæra meinta prinsessu poppheimsins og uppátæki hennar.


Með dyggri aðstoð Más Högnasonar verður nú sest við kveðskap og ortar rímur af Britney Spears. Ríman verður birt jafn óðum, líkt og kveðskapurinn um búnkerinn á sínum tíma. Aðaleinkenni hennar verður skefjalaus leirburður.

Mansöngur:

Nú skal kveða Britney brag
brösótt hennar lífið
kemst í fréttir kvurn einn dag
-kenni í brjóstið um vífið.

Út í lífið ansi keik
elti myndardrengi
saman tók við Timberlake
tolldu á föstu lengi.

Af sér losta ákaft sór
og allar brókarsóttir.
Opinberan eiðinn sór
eins og biskupsdóttir.

Fyrir þetta fræg hún varð
fólk um þetta getur
en Jústin hana seigur sarð
sumar bæði og vetur.

Prologus
Þetta er voðalega fínt orð sem sést stundum á undan innblásnum texta. Hér táknar það innganginn að rímunni þar sem almennt er fjallað um ljóðaarf þjóðarinnar, menningu, listir og almennan áhuga á öllu mannlegu í tilverunni.

Oft úr sjóði kvæðakvers
kveður þjóðin gæðavers
Sýpur óðinn Sónarkers
syngur ljóð um Britney Spears.

Fyrsta ríma.
Rannsóknir leiða í ljós æ meiri tengsl Britneyjar Spears, sem við köllum núna Bryndísi Odds, við Ísland. Hverfum í hugann aftur til 1870 eða þar um bil þegar fólk flúði héðan unnvörpum til Vesturheims. Ættfróðir herma að þar búi niðjar séra Odds á Miklabæ og tók einn þeirra upp ættarnafnið Spears.

Upp er lagt úr óðar vör
úti dags er skíma
af ljóðagyðju lyfti spjör
loks er hafin ríma.

Saga mín er saga vor
saga af ógnarstandi
þegar fólkið féll úr hor
og fara vildi úr landi.

Hérna kvöddu heimavog
hugðu bandaríska
grasið væri grænna og
gróðurloftið fríska.

Fyrir vestan byggðu bú
börn og skepnur áttu
heimamanna tóku trú
teljast Kanar máttu.

Niðja þessa nefni hér
því nýrík hringaskorðan,
söguhetja okkar, er
eiginlega að norðan.

Svipinn Miklabæjar ber
beðjan undur fögur
út af séra Oddi er
um það herma sögur.

Afi hennar Oddsson var
ættarnafni breytti
Spears hann kaus að heita þar
um hefðir engar skeytti.

Ættartengslin eru ljós
-enginn rökum hnekkir.
Hin ameríska drykkjudrós
Drangey jafnvel þekkir.

Fyrir norðan fagnað er
fólk af gleði syngur.
Sumarheimsókn hugsa sér.
Hún er Skagfirðingur!

Önnur ríma

Hér segir frá frumbýlingsárum þeirra James og Lynn og hvernig það bar til að frúin varð að hætta barnakennslunni og halda til á bak við eldavélina að hætti framsóknarkvenna. Myndin er hins vegar af afa Britneyjar sem tók mjög virkan þátt í meðgöngu tengdadótturinnar.

Nú skal breytt um bragarhátt
Britneyjar í sögu
Stenst ei þennan stuðla mátt
við stikluvikin er mér kátt.

Saga þessi segir frá
sælum Kanahjónum.
Byrjuð voru búskap á
börnin vildu gjarna fá.

Djeims hét vaskur verktakinn
vikalipur maður
en bústinn barnakennarinn
búin var með kvótann sinn.

Þótti vanur vinnutörn
vóð að konu sinn:
“Hættu að brúka kjaftakvörn
komdu heim að ala börn.”

Kvaddi barnabekkinn sinn
búi sinnti heima.
Ekki náði aftur Lynn
út á vinnumarkaðinn.

Saman áttu soninn Brján
sá var kartinn piltur.
Byrjaði þar barnalán
baptistanna í Littletown.

Vinnusamur verktakinn
vildi fleiri eiga
Strax til kosta lagði Lynn
lifnaði þá dóttirin.

Umtalað var afrekið
undir komin Britney.
Heima Lynn að sveitasið
sá um barnauppeldið.

Meðgangan var móður ströng
mikið varð að hvíla.
Dundaði sér dægrin löng
við dægurlög og vísnasöng.

Þetta hafði áhrif á
unga dóttur hennar.
þar sem hún í legi lá.
Lítið vissi um heiminn þá.

Þriðja ríma
Í þriðju rímu segir frá fæðingu Bryndísar litlu en sá dagur er enn í minnum hafður á sjúkrahúsinu, einkum fyrir vasklega framgöngu Djeims, sem í þá daga gekk rösklega að öllum verkum og sást lítt fyrir.

Er á kvæðum ekkert lát
á óðarskeri steyti bát
lekur gjarna leirinn inn
ljótur þykir fnykurinn.

Vaknar Lynn við léttasótt
legvatn hafði misst um nótt
út á gólfið fossinn fór
fagnaði því Djeims með bjór.

Flýttu sér á sjúkrahús
Saxi læknir beið þar fús
einkastofu upp á bauð
item kaffi og vínarbrauð.

Virkan þátt í verkjum tók
vísifingur bóndinn skók
hjá konu sinni kátur sat:
“Kláraðu þetta fyrir mat.”

“Í vinnu bíða vaskir menn
verð að mæta þangað senn
klukkan orðin átta og hálf
ekki rísa húsin sjálf.”

Tók úr vasa tommustokk:
Tilgangslítið þótti fokk.
Áfram vildi etja frú:
“Útvíkkun við mælum nú.”

Vísa gjörðu Djeims á dyr
digrir sjúkraliðarnir.
Saxi læknir sinnti Lynn
settist upp á rúmstokkinn.

Eftir hríðahróp um sinn
hraðametið bætti Lynn
undurgaman þótti þeim
þá var kátt um allan heim.

Fjórða ríma

Hér segir frá fyrsta árinu í lífi Bryndísar og er stuðst við mótunarkenningar Frojds og nokkrar kerlingabækur úr Skagafirði því foreldrum hennar var arfur séra Odds ofarlega í huga og oft var hugsað norður á þessum árum. Hinu skal ekki leynt að lengi býr að fyrstu gerð.

Létta skal á ljóðamal
ljúfur flíms er straumur
fer um dal og fjallasal
fjórðu rímu draumur.

Britney vakir, Britney hlær,
Britney sefur, hrýtur.
Britney hreina bleyju fær
Britney mikið skítur.

Fyrsta vika lífsins leið
lærði fljótt að blanda
þar sem eftir brjósti beið
barn með drykkjuvanda.

Næsta vika alveg eins
aldrei lát á þambi
einskis kenndi móðir meins
mikið var á rambi.

Iðrakveisa kvaldi dís
kvikur strauk um maga
Djeims sem þóttist vera vís
vambarkvilla að laga.

Úti í vagni aldrei svaf
inni lá við róða.
Henni móðurmjólkin gaf
magafylli góða.

Lítið var um fát og fum
fullur jafnan speninn.
Munaði þar mikið um
Miklabæjargenin.

Yrkja mætti ótal vers
um árið hennar fyrsta
sem breyta náði Britney Spears
í brókleysingjann þyrsta.


Fimmta ríma

Hér var ætlunin að segja frá fimleikaiðkun Bryndísar á bernskuárum þar sem hún þótti öðrum fremri við flikkflökk og heljarstökk, spíköt og splitt og eru þessar æfingar svo erfiðar að maður tognar við að fara með heiti þeirra. Söguhetja vor æfði eins og Kínverji á tímabili og kom aldrei ógrátandi af æfingum milli fimm og sex ára. Þess ber að geta að það er ástæða fyrir því að strákar eru eiginlega aldrei á jafnvægisslánni. En förum ekki nánar út í það því nú vaka táknfræðingar yfir bloggheimum.
Á sjöunda árinu slakaði Bryndís okkar á æfingum og tók upp rúmensku aðferðina þar sem bara er æft í sex tíma á dag. Í anda þessa erfiðis er fimmta ríman aðeins ein vísa en undir þeim bragarhætti sem þykir einna erfiðastur. Sjálfsagt má finna hnökra en þess ber að geta að það er erfitt að fá tíu fyrir æfingar í fimleikum.

Flétta rímu saman senn
sinni ljóðaskvísu
Létta glímu á ég enn
inni góða vísu.

Sjötta ríma
Sjötta ríman fjallar um þrá íslenska meðalmannsins í draumadísina sem birtist honum á tölvuskjánum. Tilraunir til að virkja lesendur enduðu með ósköpum en af tillitssemi við enskudýrkendur, verður ríman enskuskotin eftir föngum. Auðvitað snýst þessi draumaheimsókn upp í landkynningu og er sú tilhugsun nægileg til að draga úr áhuga Bryndísar á Íslandsheimsókn en þar sem eftirsóknarvert þykir að vera Íslandsvinur, gæti það vegið upp á móti.

Við sem unnum draumadís
og dreymir um að eiga vís
atlot þín og ást að fá
en ekki bara á tölvuskjá.

Við getum aðeins gúglað mynd
og gónt í þessum kalda wind
sem kælir okkur eins og ice
ekki er þetta weather nice.

Mig dreymir um að drösla þér
í dirty weekend over here
eflaust færðu ódýrt far
ímeilaðu til mín svar.

Kiss me, darling, come with me
to Keflavík í vetrarfrí.
Ástin þykir aldrei crime
elskaðu mig one more time.

Ég bíð þín með tæki og tól
tólgarkrús og snjáða ól
hún í Byrgi ofin er
Ironmaster léði mér.

Seinna meir í Súðavík
sýna vil þér íslensk frík
á Laugarvatni er trailer trash
með tígurlegan kanarass.

Á Selfossi er hnakkahjörð
og hallærisleg mannvitsbörð
sem gaman hafa af Geira Sæm
og gaula á kvöldin „one more time.“

Hafnarfjarðarhillbillís
hafa það sem úti frýs
grass is either grey or black
úr græðgi fellur svona pakk.

Svo leggjumst við í lónið blátt
lleirbaðið er drullugrátt
þó húðin þín sé heldur næm
„Hit me baby, one more time.“

Sjöunda ríma
Hér segir frá hárburstatímabilinu í lífi Bryndísar en fyrir og eftir fermingu æfði hún sig fyrir framan spegilinn og undirbjó söngferilinn. Með það í huga að ekki fara saman magn og gæði verður ein vísa látin duga, enda margræð. Vissulega mætti ríma eitthvað um ferminguna en eina rímorðið er þerming og það gæti misskilist. Mál er að linni.

Kveikja löngun krakka leikir
keikir fanga nýjan tón
Eikin spanga földum feykir
feikar söng í míkrafón.

8. ríma. Um söknuð Britneyjar eftir sambandsslitin við Timberleik, ferð Britneyjar, Randvers bílstjóra og Jasons Alexander til Las Vegas þar sem þau gifta sig í lítilli kapellu hjá séra Devlon.

Britney vökul vaknaði
vara-og kinnabústin
solítið þó saknaði
sælunnar með Jústin.

Morgunverð á borðið bar
bakka fullan Randver.
Japlaði á jógúrt snar
Jason Alexander.

Hennar æskuvinur var
en vildi öllu meira.
Víurnar í Britney bar
bað um koss og fleira.

Britney hafði litla lyst
leist hann frekar bráður.
Jústin hafði hana kysst
hálfum degi áður.

Síðan fór í fótabað
á fóninum var Megas
ákvað þegar eftir það
að aka beint til Vegas.

Leigði bíl og lagði upp
lipur stýrði Randver
klappa gjörði henni á hupp
hönkið Alexander.

Um diskasafnið fingrum fór
fimum hringaskorðan
á einum sá hún íslenskt klór
ættað var að norðan.

Meðan létta lagði hönd
á lærið Jason skæður
Britney sat með Andrés Önd
og Álftagerðisbræður.

Framhald á morgun. Þá verður lýst giftingu þeirra í kapellunni góðu og skilnaði í kjölfarið, Elvis kemur við sögu þar sem þetta gerist í Vegas og rímsins vegna verða fleiri kallaðir til.

Níunda ríma
Þær breytingar hafa orðið að níunda ríma rýnir í samfélagið í Kanans landi með augum þeirra Britneyjar og Jasons sem eru bæði glöggskyggn og vel lesin í sögu lands og þjóðar og ber margt fyrir augu á leiðinni til borgar spilavíta og skemmtana. Greina má stöku ádeilutón og fordóma. Líklegt er að þessi ríma vaxi á næstunni. 10. ríma fjallar síðan um veruna í Vegas og giftinguna.

Undu við á langri leið
landið frítt að skoða
úr hamborgara og hákarlssneið
höfðu þau að moða.

Út um glugga augað sér
inn í leggur sjóðinn.
Á ferðalögum fyrir ber
fjölmenningarþjóðin.

Skógur faðmar akra enn
ekkert þekkist fegra.
Þar sem áður öfgamenn
einatt hengdu negra.

Þó að sé í heimi hart
og hangi á fólki brúnin.
Úti gladdi augað margt
iðjagrænu túnin.

Daglegt amstur víða var
-vagar þungur hjassinn.
Margur aftan á sér bar
átján punda rassinn.

Alla daga etur þjóð
ýmsa skyndibita
í lærapoka leggur sjóð
löðrandi í svita.

Í tíundu rímu koma Britney og Jason til Las Vegas. Lýst er hóteldvölinni í grófum dráttum og giftingu upp úr áramótum.
Rétt er að taka fram að átt er við séra Baldur í Vatnsfirði við Djúp í síðasta erindinu en hann setti sinn svip á hugmyndir Vestfirðinga um kirkjulegar athafnir á síðustu öld.

Áfram þeysti rennireið
rauk af sætaleðri
í aftursæti orðin leið
ósköp heitt í veðri.

Límast kinnar leður við
lekur volgur svitinn
enda gefur engin grið
eyðimerkurhitinn.

Mæddi okkar mætu frú
mikill höfuðverkur
Seint að kveldi komu hjú
í kaupstað eyðimerkur.

Hótel þeirra beggja beið
baðið sáu í vændum
og reykta síld á rúgbrauðssneið
frá Reykjahlíðarbændum.

Stukku áköf upp á sæng
amorsljóðin sungu.
Eins og fuglar undir væng
á eftir höfði stungu.

Sannarlega sárabót
sýndust þeirra fundir.
Yfir þessi áramót
áttu góðar stundir.

Eftir daga ástar þrjá
urinn þeirra forðinn
Þundur tóla lúinn lá
larður siginn orðinn.

Brámáni skein brúna hlýr
Britney tókst að lyfta
höfði upp og innti hýr:
„Okkur skulum gifta.“

Jason hana horfði á
hrifinn var í framan:
„Fáum okkur pokaprest
og pússum okkur saman.“

Kapelluna fundu fljótt
fengu séra Devlon.
Britney á sig skellti skjótt
skartgripum frá Revlon.

Frá ritúali vígður vék
-varla þótti skaða.
Organistinn Elvis lék
á ólöglegum hraða.

Fram úr ermi athöfn hrist
eins og í liprum galdri.
Klerkurinn í vetrarvist
var hjá séra Baldri.

Ellefta ríma
Í elleftu rímu segir frá eftirmála giftingarinnar og skilnaði sem gekk hratt í gegn fyrir tilstuðlan bróður Britneyjar. Viðbrögðum foreldra hennar verður ekki lýst þar sem orð geta það varla en leiða má getum að því að frú Lynne hafi ekki skálað í kampavíni.

Bregð á leik og braghendu um Britney ríma
Löng er hennar glasaglíma
gleði er ekki sama og víma.

Kapelluna kvöddu þau og kysstu séra.
Á losta þótti lítið bera.
Létu organistann vera.

Fóru heim á hótelið í hamingjuna.
Við skák og amorsleiki una
Öðru hverju heyrðist stuna.

Hjúin ungu hæstánægð með hringa fína
Jason vildi broddinn brýna
en Britney hringdi í mömmu sína.

Eftirleikur eflaust þótti ógnar hraður.
Bróðir hennar hálfbrjálaður
á hótel kom og sýslumaður.

Ævintýrið ógiltu á augabragði.
Heim til mömmu leið hún lagði
lítið Jason um það sagði.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.