Framsókn

Hér er samantekinn kveðskapur og leirburður Más Högnasonar um framsóknarmenn. Þessi samantekt er í boði allsherjarnefndar.

3. maí. Mér hefur alltaf þótt Guðjón Ólafur Jónsson minna á mörð. Mörðurinn er ekki viðkunnanlegt dýr. Þess vegna hef ég hann grunaðan í stóra Jónínumálinu.

Af Jónínu ber ekki blak

þótt bölvað sé orðanna skak.

Kerfið er spillt.

Hver vill henni illt?

Mig langar að vita hver lak.

1. maí. Sá í blaði að Valgerður vill núna sækjast eftir sæti í mannréttindaráði SÞ. Þegar atvinnumiðlun framsóknarmanna tekur til starfa fyrir kosningar er alltaf spurt hvaða flokksmaður á að fá þetta sæti. Sætið í öryggisráðinu hlýtur að vera merkt kind.is.

Á atkvæðaveiðum er ýmislegt sagt

sem ómælda vekur kæti

og þetta er fram af frúnni lagt

því framsóknarmenn vantar sæti.

…..

Fyrsta auglýsing framsóknarinnar

Sundhæfni formanns Framsóknarflokksins vakti verðskuldaða athygli og hefur ímyndarsmiður flokksins ákveðið að flokkurinn slái hér eftir tvær flugur í einu höggi og bjóði upp á framboðsfund og sundkennslu í sama pakkanum. Af augljósum ástæðum, miðað við skoðanakannanir, er byrjað á björgunarsundinu.

Það er gaman á framsóknar fundi

þótt fáir laugina stundi

aðeins flokksbundnir menn

sem fíla það enn

að busla á björgunarsundi.

Síðan uppgötvuðu spunameistarinn að formanninn skortir átakanlega skjáþokka þar sem hann svamlaði í lauginni og áhorfendur biðu þess á hverri stundu að björgunarsund hæfist, en þegar því lýkur tekur við annað og alvarlegra.

Þótt formann á sundi sjái

samt þessum úrslitum spái:

Flokkurinn hrekkur

í kút og sekkur

– svo hefst lífgun úr dauðadái.

30. apríl. Enn má við þetta bæta að þar sem virðist skorta gæslu í sundlaugum landsins hefur komið upp sú tillaga að fá uppgjafaþingmenn til starfa í laugunum, einkum þá sem hafa sýnt fram á sundfimi sína. Þetta þykir ekki góð hugmynd á sumum bæjum.

Formaður er á sundinu sokkinn

sumir fara á taugunum

sem vilja láta framsóknar flokkinn

fara með gæslu í laugunum.

Þegar maður gleymir sér við hlustun á áróður í fjölmiðlum og fer að langa til að kjósa þennan pilsnerfylgisflokk er gott að hafa þessa vísu yfir.

27. apríl.

Flokkur þessi fullur er af kjánum

sem finna ekki skóginn út af trjánum

og til að verði fyrir honum friður

framsóknina skulum leggja niður.

Þetta verður forsíðumyndin á Séð og heyrt eftir kosningar.


Ímynd er erfitt að hanna

ótal dæmi það sanna

en árangur ber

og yndisleg er

ástin framsóknarmanna.

Áttunda mars fékk Magnús Stefánsson aðsvif í pontu á þingi og er talið að um sykurfall hafi verið að ræða. Við sjónvarpsáhorfendur heyrðum bara dynkinn. Sólveigu Pétursdóttur forseta brá þokkalega við þetta.


Puð þykir pólitískt spjall

í pontu var framsóknarkarl.

En Sólveigu þá

sárlega brá

svo heyrðum við sykurfall.

Um fundahöld á vegum flokksins sem náðu engan veginn að fylla lítinn sal og undir áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni varð þessi vísa til. Þarna bregður fyrir klisjunni um flokkinn sem yfirgaf frambjóðandann en eins og margir vita, hefur framsóknarflokkurinn aðallega yfirgefið kjósendur sína.

Yfirgaf hann okkur

öllum málum spillir.

Heillum horfinn flokkur

hálfan salinn fyllir.

Dr. Rigor Mortis, þekktur réttarmeinasérfræðingur, hefur tjáð sig um faðernismál Lúðvíks Gizurarsonar, þar sem Hæstiréttur hefur heimilað erfðafræðilega rannsókn. Sennilega þarf að grafa eitthvað upp. Um þetta mætti fara mörgum flóknum fræðiorðum en niðurstöðu dr. Rigor má draga saman í þessari vísu. Af því framsóknarmaður á í hlut á þessi vísa heima hérna. Dr. Rigor hefur annars verið okkur innan handar með margskonar greiningar.

Nú keifa menn út í kirkjugarð

við kisturnar ætla að dúlla

og máske finna þeir bak við barð

bein úr pabba hans Lúlla.

Og þessi vísa tengist framsókn ekkert en hún er um pólitík, nánar tiltekið framboð aldraðra og öryrkja sem náðu ekki að skila inn listum í tæka tíð í nokkrum kjördæmum því sendillinn fékk smá alsheimer á leiðinni og villtist.

Á þingið vilja allir inn

ekki vantar metnaðinn

ætla fram með áform skýr

öryrkjar og hrukkudýr.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.