Möllersríman

Upphafið var yfirlýsing mín um hollustu Möllersæfinga í morgunsárið, þar sem fyrir dyrum er keppni á föstudaginn, sem að vísu reynir meira á heilabúið en skrokkinn. Þó þarf að hlaupa eftir bjöllu en það kemur ekki í minn hlut. Framhaldið er að finna á fésbókarsíðu minni:

Hjálmar Theodórsson lýsti yfir fögnuði sínum:

„Aldrei fór það svo að maður yrði ekki þakklátur skammdeginu.
Ég vona altént að téðar æfingar fari fram í skjóli myrkurs.“

Síðan hófst kveðskapurinn:

Hjálmar Theodórsson kl. 08:58 þann 10. desember
Bar sig eftir bjöllunni
ber að Möllers hætti
Allsnakinn í Útsvari
andstæðingum mætt

Gisli Asgeirsson kl. 09:00 þann 10. desember
Fegurð minni flíka vil
þó fitu megi klípa.
Ber að ofan býst ég til
bjölluna að grípa.

Hjálmar Theodórsson kl. 09:11 þann 10. desember
Lands að skjánum ljúfa snót
laðar fróðleiksþorstinn
Um svörin ekki hirðir hót
hana teymir lostinn

Gisli Asgeirsson kl. 09:17 þann 10. desember
Mikil verður sjón að sjá
svala þeirra hvötum.
Meyjar vilja mætan fá
mann í engum fötum

Hjálmar Theodórsson kl. 09:23 þann 10. desember
Eitt ég óttast allra mest
engum kem við vörnum
Útsvar verði eins og flest
ekki heimilt börnum

Gisli Asgeirsson kl. 09:36 þann 10. desember
Banni verður brugðist við
byrgi svæðið hreðja
Herði streng og held á svið
heiminn til að gleðja.

Hjálmar Theodórsson kl. 09:55 þann 10. desember
Ef þú skyldir upp á svið
og úr skýlu þröngri dreginn
gleðst þá lausgyrt kvenna lið
-litlu verður vöggur feginn

Gisli Asgeirsson kl. 10:35 þann 10. desember
Máske verður keppnin klúr
og kátína í liði
þegar fleiri fara úr
fötunum á sviði.

Hjálmar Theodórsson kl. 10:43 þann 10. desember
Áhorf held ég aukist senn
alveg hreint í grænum hvelli
skarti vaskir sjónvarpsmenn
síinum bera sjónvarpsdrelli
Gisli Asgeirsson kl. 10:49 þann 10. desember
Nektin oftast nytsöm er
nokkuð geðið léttir
þegar Bogi á þvengnum fer
að þylja kreppufréttir.

Hjálmar Theodórsson kl. 11:27 þann 10. desember
Landsmenn allir lifna skjótt
lúffar kreppan þvera
þegar fréttir færir fljótt
fréttakonan bera

Gisli Asgeirsson kl. 11:34 þann 10. desember
Í nektina er þjóðin þyrst
þessu eftir bíður
Einhvern tíma Elín Hirst
ein á vaðið ríður.

Hjálmar Theodórsson kl. 11:43 þann 10. desember
Jóhanna Vigdís

Andar verður dráttur ör
ekki er það að dylja
blítt með bera neðrivör
boðskap fer að þylja

kætir menn án klæða hún
kátur greipar spenni
Allsnakin fer augabrún
upp á hennar enni

Gisli Asgeirsson kl. 11:54 þann 10. desember
Misjafnlega mönnum líður
margir undan líta þá
þegar mætir Stormur stríður
og stendur ber við veðurspá.

Hjálmar Theodórsson kl. 13:08 þann 10. desember
Skelfur allt mitt síðuspik
sköllin glymja hátt
Þegar blautlegt bendiprik
brúkar Stormur smátt

Gisli Asgeirsson kl. 13:17 þann 10. desember
Við kortið kynnir sín fræði
kitlar draumur um frægð
hann er með háþrýstisvæði
og hugsar um djúpa lægð.

Hjálmar Theodórsson kl. 13:22 þann 10. desember
Um hægðir og lægðir við hugsum
en hýrlegur Stormurinn ber
Flettir sig bísperrtur buxsum
og bendir í áttin’að þér

Gisli Asgeirsson kl. 13:42 þann 10. desember
Von er kannski vætu á
ef veðurfréttamaður
sínum brókum flettir frá
og fagnar konum …..

Hjálmar Theodórsson kl. 13:50 þann 10. desember
Stormur þessi ógnar ör
otar sínum tota
hvað eru mikil millibör
í mannsinns sprota?

Gisli Asgeirsson kl. 16:34 þann 10. desember
Æðir Stormur ansi súr
ekki af baki dottinn
Kraftur hans er allur úr
afturenda sprottinn.

Hjálmar Theodórsson kl. 17:10 þann 10. desember
Muna skyldi mannsbarn hvert
meðan lamar ótti
Stormsins auga aftanvert
andar köldu af þrótti

Gisli Asgeirsson kl. 17:45 þann 10. desember
Að mér steðjar ógnarvá
auga Stormsins hræðir
þegar starir okkur á
og aftangustur næðir.

Hjálmar Theodórsson kl. 19:28 þann 10. desember
Andköf tek við aftansöng
andagiftin búin
Stormsins hrina svakalöng
sofnar vitund lúin

Gisli Asgeirsson kl. 21:20 þann 10. desember
Löngu tæmt er Boðnar búr
búin dagsins ríma
núna fer ég fötum úr
fyrir háttatíma.

Hjálmar Theodórsson kl. 21:33 þann 10. desember
Nú er lokið ljóða spreng
löndin drauma bíða
búiinn er í boldangsþveng
best að fara að… halla sér

Gisli Asgeirsson kl. 22:01 þann 10. desember
Góður! Þú verðskuldar síðasta orðið.

Hjálmar Theodórsson kl. 22:03 þann 10. desember
Þetta er höfðinglegra boð en svo að ég geti þegið það…

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.