Sagan af brauðinu góða

Upphaf þessarar sögu er að Páll bróðir talaði fjálglega um brauð sem þyrfti ekki að hnoða, benti á uppskriftir og sagði þetta besta brauð fyrr og síðar. Um svipað leyti hóf hann leitina að fullkomna rúgbrauðinu (eins og því sem Björg amma bakaði) og varð ég fyrir miklum brauðhrifum á þessum tíma. Nú er komið að því að miðla minni brauðsögu til kynslóðanna.

Þetta er upphafið. Bleik og húsmæðisleg skál er tekin, ásamt venjulegri kakókrús til mælinga. Á myndinni er komið í skálina: 3 krúsir heilhveiti, 1 krús hveiti, hálf krús af hörfræi og hálf af sólblómafræjum, ásamt hálfri teskeið af geri og einni matskeið af salti. Hrært með sleikju og út í fer 2,5 krús af fingurvolgu vatni. Hrært rösklega þar til deigið lítur skikkanlega út.

Þetta er potturinn sem brauðið er bakað í. Lokið af honum passar prýðilega ofan á bleiku og húsmæðislegu skálina, sem fer nú á öruggan stað í eldhúsinu (þar sem kötturinn kemst ekki að henni) og er látin standa þar yfir nótt. Ég hrærði þetta deig síðdegis í gær og geri ráð fyrir allt að 20 tíma gerjun. Germagnið er frekar lítið og gerjunin er hæg en jöfn og þétt og þegar lokið er tekið af um miðmorgun lítur deigið sisona út.
Deigið er á þessu stigi mjög líflegt og ilmandi. Nú er potturinn tekinn og hann settur inn í ofninn og stillt á 250 gráður og beðið í stundarfjórðung þar til allt er orðið brennheitt og þá er vissara að nota eldhúshanska og loka köttinn inni á góðum stað, þegar potturinn er tekinn út til að í hann megi skófla deiginu. Það er gert með sleikjunni sem er vætt í köldu vatni til að sem minnst loði við hana.
Lokið fer á pottinn og pottur inn í ofn og þar er hann í um 40 mínútur því brauðið er svo gróft í eðli sínu. Þá er lokið tekið af og potturinn hafður opinn í ofninum í stundarfjórðung til að skorpan verði stökk og brakandi góð undir tönn.
Ef aðallega er hveiti í brauðinu er bökunartíminn styttri og þá verður brauðið líka skemmtilega gisið og seigt undir tönn. Þótt það sé girnilegt á brettinu borgar sig ekki að skera það næsta klukkutímann, heldur leyfa því að jafna sig. Mikill raki er í svona brauði og það er mjúkt og gott í allt að viku (nema maður jeti það á tveimur dögum eins og hér kemur fyrir).
Ég hef hnoðað brauð og látið lyfta sér á hefðbundinn hátt en var aldrei nógu ánægður með þau. Þetta brauð uppfyllir allar kröfur hér á bæ. Hægt er að hringla með uppskriftina, svo fremi að ekki sé hróflað við hlutföllum þurrefnis og vökva.

12 athugasemdir við “Sagan af brauðinu góða

 1. Standa í klukkutíma eftir bakstur???? Það er fullkomlega óraunsætt á mínu heimili er ég hrædd um. Annars mun ég prófa þetta, það er ekki spurning. Ég baka mjög oft fljótlega brauðið hennar Nönnu, það er mjög svipað en ekki eins gróft.

 2. Þú berð þig að eins og kélling Gísli. Félagsskapurinn við feministana hefur skilið eftir ör. Sannir karlmenn fara ekki eftir uppskriftum. Ég hélt að allir vissu það 🙂 En ef Páll bróðir þinn er enn að leita að rúgbrauðsuppskrift þá er hér ein af seiddu rúgbrauði sem bregst aldrei;
  3 bollar hveiti
  2 bollar heilhveiti eða hveitiklíð
  5 bollar rúgmjöl
  1 bolli sykur
  5 tsk vínsteinslyftiduft
  smá maldon salt
  1 l mjólk, súrmjólk. AB mjólk eða sojamjólk til að bleyta með (sjóðandi vatn má líka nota í restina..
  Aðferð: Öllu þurrefninu hrært varlega saman með trésleif og vökvanum bætt út í uns deigið hefur tekið í sig vökvann og tollir saman þótt skálinni sé snúið á hvolf. (Nanna Rögnvalds segir að það sé galdurinn á bak við brauðbakstur að hræra lítið!) Deigið er nú sett í 3 tómar mjólkurfernur og fyllt að 3/4 og þær síðan settar inní blástursofn og bakað við 100°gráður C í 18-20 klukkustundir.

  • Nei, hann er svo sjóðheitur þegar deigið lekur í hann að það myndast skorpa á brauðrassinum. Til öryggis hef ég stundum sett bökunarpappírshring en er hættur því.

  • Já, það held ég. Minn brauðpottur er annars úr stáli og var einu sinni popppottur, því botninn er svo þykkur, en svo kom bóla á hann og eftir það var hann lagður til hliðar.

 3. Bakvísun: Vort daglega brauð | Málbeinið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.