Rándýru rafbækurnar -2. kafli

Í bókafréttum er það helst að ný rafbókaverslun hefur verið opnuð á netinu. Vegna rafbókaáhuga míns var einboðið að kynna sér hana og skoða verð á íslenskum bókum og erlendum. Á forsíðunni eru þessar bækur auglýstar:

50 gráir skuggar á 2850. Reglur hússins á 2340. Fantasíur á 1990. Fórnardauði á 1690.Konan í búrinu á 2230. Erlendar bækur eru  Behind The Beautiful Forevers á 3110 og The light between oceans á 2340,

Verðsamanburður leiðir þetta í ljós:

Reglur hússins fæst á 1440 í kilju og 2290 hjá Forlaginu. Fórnardauði er á 2290 í kilju og 1690 í rafbók. Konan í búrinu er á 2290 í kilju og 2190 í rafbók. 50 gráir skuggar eru á 2850.   Hér er athyglisvert að sjá bæði hærra og lægra verð á kilju en rafbók, miðað við útskýringar útgefenda á kostnaði og verðlagningu við rafbókagerð.  Annað verð virðist svipað. Allt er þetta gott og blessað.

Ég ákvað að heimsækja Amazon frænda og athuga hvað þar væri í boði. Behind the beautiful forevers kostar þar 17.11 dollara á sem eru um 2100 krónur. The Light Between Oceans kostar 12 dollara á Amazon sem eru 1470 krónur. Munurinn er annars vegar 1000 krónur og hins vegar tæpar 900 krónur.

Þegar hér var komið sögu vildi ég sýna nýju versluninni sanngirni og fletti upp einni bók í viðbót. Það er Quiet eftir Susan Cain sem fæst á 3460 en Amazon frændi selur hana á 1960. Verðmunurinn er 1500. Á rafrænu formi.

Auðvitað er gott að íslenskar rafbókaverslanir bjóði erlenda titla. En ég skil ekki hvað gerist á leið yfir hafið á ljóshraða netsins. Af hverju hækkar verðið svona mikið? Er hugsanlega svona dýrt að senda skjal milli landa í viðhengi? Er betra, skemmtilegra eða krúttlegra að kaupa útlendu rafbókina sína á íslenskri síðu?

Við höfum séð skýringar á verðlagningu íslensku bókanna og er þar margt talið upp.  Egill Örn svaraði vel og málefnalega fyrir hönd Forlagsins í athugasemdum við þessa færslu. En erlendu bækurnar koma væntanlega tilbúnar í skjali og frágengnar fyrir Kindle eða álíka lestölvu. Ég hlakka til að fá skýringar hjá eigendum nýju verslunarinnar á þessari miklu hækkun í hafi. Þangað til held ég áfram að afla mér rafbóka utanlands eftir ýmsum leiðum. Íslenska leiðin er enn ófær.

8 athugasemdir við “Rándýru rafbækurnar -2. kafli

  1. Kíkti líka í nýju rafbókabúðina og sá að ég myndi frekar fjárfesta í þeirri bók sem mig langaði strax í Á PAPPÍR (Rof eftir Ragnar Jónsson) því hún kostar væntanlega hið sama á því formi og ég losna við vesenið við að brjóta upp afritunarvörn í einu forriti til þess að geta breytt skránni í form sem Kindillinn minn les, í öðru forriti. Hvarflar ekki að mér að kaupa erlendar bækur í þessari nýju rafbókabúð enda er hægt að fá þær miklu ódýrari úr erlendum rafbókabúðum. Ég tek undir það að mjög spennandi væri að fá að vita hvernig ein stafræn skrá getur orðið svona miklu verðmætari á netskýi rafbókabúðar hér á klakanum, þ.e. hækkað umtalsvert í verði.

    P.S. Svo virkar vefurinn ebóka ekki í Chrome og ég þurfti að ræsa upp þann gamla fjanda, WE til að geta lesið meir en blámiðjuna á undirsíðum … ætli þeir hafi bara forritað vefinn fyrir farsíma og æpöddur?

  2. 25,5% munur er skiljanlegur, því íslenskar verslanir þurfa að leggja vaskinn á, á meðan mig minnir að þú þurfir enn að gera það sjálfur hjá Amazon (breyting hefur verið í umræðunni en er ekki viss um að hún sé komin í gegn).

  3. Bakvísun: Rafbækur, ebækur, netskinnur og tölvuskruddur « Rúnatýr

  4. Bakvísun: Rafbækur, skruddur, ebækur og netskinnur | Rúnatýr

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.