Eiríksjökull

Ég er kominn á þá skoðun að allir Íslendingar ættu að ganga einu sinni á ævinni í kringum jökul. Þetta gerði ég í góðum félagsskap á föstudag og laugardag, fór kringum Eiríksjökul í blíðskaparveðri og upplifði mestu kyrrð til fjalla sem ég man eftir. Þarna er stórbrotið landslag, klettar, vötn, sandar, steinbogar, leirsléttur og grjót í ríkum mæli. Að vakna klukkan sex að morgni við brennheita sólina á tjaldinu sínu, setjast út á nærbrókinni og horfa á Langjökul meðal snjórinn í morgunsopann bráðnar, er afskaplega hollt. Ég hugsaði svo skýrt að á tímabili hélt ég að ég væri öðrum greindari. En það rjátlaðist af mér.
Það má vel vera að það sé tilgangslítil iðja að böðlast í illfæru landslagi tímunum saman með allt sitt hafurtask á bakinu. En þetta svínvirkaði eftir bílífi sumarfrísins og fyllti sálartetrið af notalegum friði sem fæst aðeins uppi á fjöllum. Hér eru myndir.

Ein athugasemd við “Eiríksjökull

  1. A tarna gerðuð þið góðan túr umhverfis hluta ættaróðalsins. Ég held að Eiríksjökull sé í landareign Kalmanstungu (nema búið sé að breyta þessu öllu í þjóðlendur). Hann er fegurstur fjalla hér í minni bók, enda er ég alinn upp í þessum fjallahring. Oft hef ég stoltur bent á hvítan skallann á hægri hönd komandi ofan af Kaldadal og sagt eitthvað á þessa leið: „Dieser Gletscher da drüben gehört meinem Onkel, meine Herrschaften.“

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.