Mannkindin meinvilla

Þetta er sjálfsagt eini dagur ársins þar sem er hægt er með góðu móti að hnýta í einna verstu þýðingu/umyrkingu á sálmi sem um getur. Þótt ég feginn vildi, gæti ég ekki útskýrt fyrsta erindið af heimsumbólinu. En kannski þarf ég þess ekki. Jólin standa ekki og falla með einum sálmi sem hverfur hvort eð er í hringiðuna og frumgæði ljóssins verða áfram torskilin og mannkindin, sem ég hélt ungur að væri rolla sem hefði orðið eftir uppi á fjöllum, verður alltaf kindarleg, hvað sem prestarnir segja.
Jólin eru reyndar löngu komin í mínum ranni. Þau eru hlæjandi börn sem stökkva upp í til manns í rauðabítið og veifa gjöfum sem jólasveinninn færði þeim um nóttina, skreyta jólatréð undir kjörorðinu „mest er best“ og láta kenningar um burðarþol greina út í veður og vind, þreifa í laumi á pökkum og þreytast seint á að heyra sögur þar sem hið góða sigrar alltaf og öll dýrin í skóginum eru vinir.
Með svona fólki er gott að fagna jólum.

6 athugasemdir við “Mannkindin meinvilla

  1. ó já 🙂

    En það er reyndar ekki talað um frumgæði ljóss heldur frumglæði, kannski ekki mikið skiljanlegra amk. ekki fyrir lítli börn með stór augu…

  2. Ég átti alltaf erfitt með að skilja hver þessi meinvill væri sem lá í myrkrinu en það hefur svo sem ekki skipt sköpum. Bestu jólakveðjur til aðalritarans og skreytimeistaranna.

  3. Samkv. ísl. orðabók Menningarsjóðs í ritsjtórn Árna Bö hefur seimur þrjár merkingar:
    1. Gull eða auðæfi.
    2. Tala eða syngja dræmt(draga seiminn).
    3. Vaxkaka með hunangi.

    Ef þriðja merkingin er notuð erum við um þessar mundir að gleðjast yfir lifandi brunni
    andlegrar vaxköku með hunagi.

  4. Mér líst miður vel á þessar merkingar. Hugur minn er hjá aumingja manninum sem barði þessa vitleysu saman.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.