Kynþokkafullur þýðandi

Í morgun hlustaði ég á útvarpsmeyjar vegsama kynþokka kvenna eins og fylgir hinum markaðssetta konudegi. Sami háttur var hafður á fyrir skömmu fyrir bóndadaginn. Þótt sumum þyki útlitsdýrkunin hallærisleg og hálfvitaleg, hef ég ákveðið að taka upp þennan mælikvarða í nokkra daga. Þar styðst ég við tískublöð, slúðurdálka fjölmiðla og almenna innrætingu sem endurspeglast í viðhorfum samfélagsins.
Fötin skapa manninn. Þetta er staðreynd. Ég varði löngum tíma í fataval í morgun með það í huga að vekja ekki óhug almennings. Ég geri mér grein fyrir vaxandi hárleysi á höfði og geng með höfuðfat af almennri tillitssemi. Í matvöruversluninni held ég mig nálægt velklæddu, snyrtilegu og fallegu fólki, hermi innkaupin eftir þeim og fer auðvitað í röð hjá flottustu kassadömunni. Hinar geta afgreitt ófríða og misheppnaða pakkið.
Ég hef þegar vegið og metið kontórfélaga mína á þessum forsendum og þótt kosning hafi ekki farið fram, er ég án efa kynþokkafyllsti þýðandinn í Brautarholti. Mér líður vel með titilinn og ætla að láta Séð og heyrt vita hvar ég skokka seinnipartinn. Fyrirsögnin blasir við: „Þokki í skokki-Sjáið myndirnar!“

2 athugasemdir við “Kynþokkafullur þýðandi

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.