Raunir kvennalandsliðsins

Að fagna sigri er góð skemmtun. Þá þykir mörgum gott að fá sér mjöð í glas, jafnvel áfengan, og skála fyrir áfanganum. Fyrir vikið hafa sumir verið settir út af sakramentinu fyrir vikið, sendir heim eða settir út úr hópnum. Með einum staf til viðbótar verður til „Heilbrigð skál í hraustum líkama„. Á Kóvit-tímum þykja það mikil forréttindi að mega halda partí án þess að þurfa að telja inn. En þetta var gert með vitund og vilja KSÍ.

Kvennalandsliðið fagnaði vel eftir leikinn við Ungverja. Sumir virðast hafa fagnað meira en aðrir og þá einkum sá er helst hefði átt að gæta hófs og vera til fyrirmyndar, þ.e. þjálfarinn sjálfur, Jón Þór Hauksson. Frá því er greint í þessari frásögn. Hvað nákvæmlega var sagt er ekki vitað með vissu en það var of mikið. Kannski nær hann að biðja allar afsökunar og bæta fyrir brot sín en trúnaðarbrestur verður ekki bættur með föndurlími. Og þegar þjálfarinn hellir sér yfir bestu leikmennina og reynir við eina úr hópnum, eins og heimildir herma, án þess að fulltrúar KSÍ á staðnum bregðist við, er illt í efni.

En þetta er ekki eina dæmið þar sem þjálfari liðsins hefur gengið of langt. 1999 tók Þórður Lárusson við landsliðinu af Vöndu Sigurgeirsdóttur. Hann stýrði því í þremur leikjum en þá höfðu leikmenn fengið nóg og neituðu að spila undir hans stjórn. Þóra Björg Helgadóttir tjáði sig um þetta mál í ráðstefnuerindi árið 2018. Þar segir: „….segir að þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafi á sínum tíma verið ölvaður í landsliðsverkefni og boðið leikmönnum upp á herbergi til sín. Hann hafi auk þess hvorki þekkt leikmenn með nafni né vitað hvaða stöðu þær spiluðu.“

Þórður fann enga sök hjá sér og reyndi að klína sökinni á liðsmenn. Nánar má lesa um þetta mál í grein Vísis.

Liðið fékk nýjan þjálfara og Þórður hefur sennilega skálað fyrir því. En erindi Þóru þótti gott og fróðlegt. Það bar yfirskriftina „Girl in a man’s world – A story from a former professional player“ sem mætti þýða sem „Frásögn fyrrverandi atvinnumanns – kona í karlaheimi.“ Það er réttnefni því lengi voru konur gestir í karlaheiminum sem réði öllu í knattspyrnunni og á árum áður fullyrtu ónefndir framámenn og landsliðsþjálfarar að kvennaboltinn væri ekki íþrótt. Minna má á að „árið 1984 hætti kvennalandsliðið í Evrópukeppninni. Ákvörðunin var tekin af Knattspyrnusambandi Íslands og mikil óánægja var á meðal landsliðskvenna sem söfnuðu 2.129 undirskriftum gegn ákvörðun KSÍ. Fyrir ákvörðun KSÍ hafði liðið spilað 6 leiki í evrópukeppninni frá stofnun kvennalandsliðsins. Ákvörðunin þýddi jafnframt að liðið gæti ekki keppt í evrópukeppninni fyrr en 1987. Á árinu 1987 tók við að kvennalandsliðið var lagt niður, og var ekki endurvakið fyrr en 1993.“ Kannski hefur árangurinn ekki þótt nógu góður en karlaliðið reið heldur ekki feitum hesti frá alþjóðamótum. Ímynda má sér ramakveinið, hefði það verið lagt á hilluna í nokkur ár.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði og besti leikmaður liðsins, kom snemma í landsliðshópinn og það gekk ekki þrautalaust. Í bók sem hún gaf út 2018, gerir hún upp mjög erfiðan tíma með lands­liðinu sem í fólst mikill lær­dómur. Því að erfiðustu á­tökin eru oft ekki á vellinum. Þegar hún var sau­tján ára gömul var grófum slúður­sögum dreift um hana og Sigurð Ragnar Eyjólfs­son lands­liðs­þjálfara. „Sögu­sagnirnar voru á þá leið að við stæðum í fram­hjá­haldi. Þetta var mikið á­fall. Ég átti kærasta og Siggi Raggi átti konu og barn. Þetta var sér­lega rætin kjafta­saga og at­laga að mann­orði okkar. Slúður­sögurnar gáfu í skyn að ég ætti ekki plássið í lands­liðinu skilið. Ég var sjálf ekki viss um hvernig ég ætti að tækla þetta og varð ó­örugg og kvíðin. For­eldrar mínir studdu vel við mig,“ segir hún.

Þetta og fleira sagði Sara Björk í viðtali við Fréttablaðið og hægt er að lesa það hér.

Það er aldrei gott þegar landslið þurfa að berjast bæði innan vallar og utan. Það hefur verið hlutskipti kvennaliðsins of oft eins og dæmin sýna en núna er það betur í stakk búið til að taka ágjöfinni. Vonandi þarf hópurinn ekki að fara sömu leið og árið 1999, heldur hafi stjórnendur hjá KSÍ döngun og skynsemi til að haga sér sem slíkir. Til viðmiðunar er einboðið að velta fyrir sér hvernig hefði verið farið með svona mál hjá karlalandsliðinu.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.