Enskuvæðing ríkisútvarpsins

Þegar jeg byrjaði sem frjettaþýðandi hjá ríkisfjölmiðlinum okkar sem þá var til húsa á Laugavegi, var áberandi hvað mikið var lagt upp úr því að allt sem færi út á erlendu máli, væri þýtt samviskusamlega og áhersla var á rjettar þýðingar þar sem ekkert færi á milli mála. Þetta var 1996 eða þar um bil og jeg var viðloðandi RÚV fram yfir aldamót. Mjer fannst þetta allt lærdómsríkt og bera vott um virðingu fyrir okkar ástkæra ylhýra. Á sinn hátt er þetta liðin tíð.

Á Rás 1 er alla virka daga einn fróðlegasti og skemmtilegasti þátturinn að loknum frjettum. „Þetta helst.“ Jeg hlusta mjer nær alltaf til ánægju en ekki fer fram hjá neinum vaxandi áhersla á óþýdd innskot, sem eiga væntanlega að gera gott efni ítarlegra og fróðlegra. En til að svo verði fyrir öll, þarf að endursegja. Þetta gerir annað dagskrárgerðarfólk.

Í dag taldi jeg 10 leikin viðtalsbrot eða hljóðbúta í framangreindum frjettaþætti. Ekkert var endursagt eða þýtt. Jeg lagði ekki við hlustir í upphafi og náði ekki að tengja enskuna við efnið en beið síðan þolinmóður eftir endursögn, sem var ekki í boði. Mjer finnst þetta gersamlega óboðlegt í íslensku útvarpi, þar sem gert er ráð fyrir svo frábærri enskukunnáttu, að ekki þurfi að þýða. Nógu mörg dæmi eru um það að enskukunnátta alþýðu manna er stórlega ofmetin. Bæði ofmetur fólk oft eigin kunnáttu og þau sem þykir óþarfi að þýða, ofmeta kunnáttu annarra.

Jeg hef stundum reynt að leiðrjetta meinlegar þýðingarvillur og misskilning í málflutningi fólks, einkum þar sem meginröksemdir í baráttu viðkomandi eru grundvallaðar á villunum. Það hefur stundum haft áhrif en oftar en ekki er mjer sagt að snarhalda kjafti eða á mjer eru látnar dynja persónulegar ávirðingar og skítkast. Síðan blokkar fólk mig á fjesbókinni eða rekur mig úr málefnahópum.

Jeg er viss um að stjórnendur „Þetta helst“ geta gert betur, endursagt og þýtt efni. Jeg, sem dyggur hlustandi, ber fram þá frómu ósk að efnistök verði með þeim hætti að allar hlustendur fái notið. Ekki bara gamlir frjettaþýðendur.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.