Í skugga fílsins…

Í vor eru 50 ár síðan jeg setti ekki upp stúdentshúfu ásamt samstúdentum mínum. Á þessari mynd er árgangurinn næstum allur og einhvers staðar er jeg þarna, lubbalegur og mótþróagjarn, því jeg vildi frekar kaupa hvítvínsflöskur en stúdentshúfu. Það var þá.

Jeg hef orðið þess var að sumum þykir þetta merkur áfangi og jeg man að á 10 ára afmælinu var safnað fyrir einhverri gjöf en jeg var þá svo blankur að jeg færðist undan en kvaðst í staðinn vilja styrkja styttu af Jóni og Bryndísi á Silfurtorginu. Mjer var hlýtt til þeirra beggja, enda afburða kennarar og það er ekki þeirra sök hvað jeg fjekk ljelegar einkunnir vorið 1974. Á 20 ára afmælinu var ekkert í gangi sem jeg varð var við en á 40 ára afmælinu virðist hafa verið stofnaður fjesbókarhópur útskriftarárgangsins og í þeim hópi hafa verið 17 meðlimir síðan. Það þýðir að 15 vantar. Mjer var ekki boðið í hópinn þá en fjekk boð fyrir nokkrum dögum og breytir litlu fyrir mig hvort það boð hafi komið áratug of seint. Jeg þáði, því jeg er svo jákvæður. 🙂

Ekki er þó allt sem sýnist. Við venjulegar kringumstæður hefði skólameistara og frú verið fagnað á Ísafirði og jafnvel hnoðað í samkvæmi. Því er ekki að heilsa núna því fíllinn í stofunni myndi skyggja á allt. Um þennan fíl er t.d. hægt að lesa í þessari sögu sem er að finna í þessu sögusafni. „

1973 – 1975

Skólameistarinn Jón Baldvin

18 ára nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði

Ég var 18 ára þegar ég var kosin formaður nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði haustið 1973. Ég þurfti því oft að tala máli félagsins við skólameistarann sem var næstum helmingi eldri. Jón Baldvin notaði hvert tækifæri til að skjalla mig og stríða á góðlátlegan hátt en fór svo að sýna mér annars konar áhuga. Hann átti við mig langar, háfleygar samræður á skrifstofu sinni sem létu mig halda að ég stæði honum jafnfætis. Þannig náði hann valdi yfir mér. Fór svo að lauma til mín bréfmiðum með tvíræðum skilaboðum og boðaði mig á skrifstofu sína, oft án tilefnis. Síðan steig hann skrefi lengra, faðmaði mig og kyssti og setti í framhaldinu fingur upp í leggöng mín. Þá brotnaði eitthvað inni í mér sem varð til þess að hann náði enn meira valdi yfir mér.

Jeg veit hver segir hjer frá og það stendur ekki til að vjefengja þessa sögu eða aðrar í þessu sögusafni. Sögurnar eru sumar frá mínum skólaárum fyrir vestan, aðrar eldri eða yngri. Öllum hefur skólameistari neitað og staðið í málarekstri fyrir dómstólum út af sumum.

Jeg fer ekki vestur í vor. Yfir fögnuði 50 ára afmælisins hvílir þessi ljóti skuggi af fílnum sem jeg efa ekki að flestir sjái. Öðrum finnst sjálfsagt einboðið að halda gott partí og hugsa ekki um fortíðina. Mig langar ekki.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.