Rándýru rafbækurnar

Ég hef aldrei skilið af hverju íslenskar rafbækur þurfa að vera svona dýrar, þrátt fyrir tilraunir útgefenda til að útskýra það.  Í greininni sem hér er vísað á, er fjallað um rafbókavæðinguna eins og  mikið tilhlökkunarefni sem bókaunnendur hafa beðið óþreyjufullir eftir. Reyndar er tekið fram að óþarfi sé að búast við verðlækkunum því þetta ferli ku vera dýrt og fyrirhafnarmikið.

Ég á núna rúmlega 700 rafbækur sem eru fengnar eftir ýmsum leiðum. Mér endist vonandi ævin til að lesa þær. Nógu margar pappírsbækur eru ólesnar hér í hillunum. Þessar rafbækur mínar eru á epub-sniði, sumar á pdf, því ég les þær í fartölvunni og get stækkað letrið, sem er gott fyrir sjóndapra. Ég vænti þess að lágt verð á þessum bókum ráðist af því hvað er einfalt að breyta rafrænu handriti í pdf. Ein skipun sparar pappír. En íslenskar rafbækur dettur mér ekki í hug að kaupa og ástæðan er t.d. þessi:

Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Rafbókin kostar 3799. Á sama verði eru Góði elskhuginn, Harmur englanna og Himnaríki og helvíti. Í kilju kosta þessar bækur 2490 til 2699. Verðlagningin virðist vera almennt á þessum nótum.

Í deild erlendra bóka er Hungurleikjaserían á ensku á 4800. Ég man ekki hvað ég borgaði fyrir þær á sínum tíma frá útlandinu en það var langt frá þessari tölu. Fimmtíu gráir lampaskermar eða fimmtíu grá sólgleraugu (íslenskun á titli) kostar í rafrænu formi 2399. Henni er núna dreift ókeypis víða á netinu.

Er nema von að ég stígi ekki trylltan dans af tilhlökkun yfir væntanlegri rafbókavæðingu hérlendis??

Ein athugasemd við “Rándýru rafbækurnar

  1. Fyrr á þessu ári ræddi ég þetta stuttlega við Egil Örn Jóhansson. Hann tjáði mér þar að það kostaði forlagið hans formúur og mikla vinnu að umbreyta handriti í rafbók. Kannski eru allir íslenskir höfundar að skila handritum á kálfskinni, en það skýrir ekki geðveikislega álagningu á erlendum rafbókum.

    Bottomlænið er náttúrulega: Íslenskir útgefendur vita ekkert hvað þeir eru að gera.

  2. Sæll Gísli,

    Ekki veit ég hvaða viðmið þú hefur þegar þú kemst að þeirri niðurstöðu að íslenskar rafbækur séu „rándýrar“. Vissulega geturðu fundið dæmi, eins og bók Yrsu, en staðreyndin er sú að flestar þeirra rafbóka sem komið hafa út á liðnum vikum og mánuðum eru að kosta undir 2 þúsund krónum, eða þar um bil. Það er ca 30-50% ódýrara í flestum tilvikum en prentuð útgáfa, en vissulega getur það verið mismunandi en verðbreytingar á bæði rafbókum og prentbókum algengar. Þú getur skoðað þetta á forlagid.is.

    Það kostar í dag töluverða peninga að koma rafbók í það form að „bókin“ virki í flestum gerðum lesara, óháð letri (stærra/minna), leturgerð, skjástærð o.s.frv. Lesandinn gerir kröfu til þess að geta nýtt alla þá möguleika sem rafbók á að geta boðið uppá, og því ekki boðlegt að fara „ódýrustu“ leiðina að því að búa rafbók til útgáfu. Prentkostnaður, sem hlutfall af útgáfukostnaði, er að sama skapi ekki nema 20-35% af heildarútgáfukostnaði – og því ekki hægt að búast við því að rafbækur séu á miklu lægra verði, en prentuð útgáfa sömu bókar.

    Með betri tækni við gerð rafbóka verður sá kostnaður vonandi minni en hann er í dag. En eftir stendur að áfram verður sami kostnaður við ritstjórn, yfirlestur, hönnun, uppsetningu og markaðssetningu – og í einhverjum tilvikum myndakostnaður og ýmislegt annað sem sumar bækur bera.

    Eins finnst mér nokkuð ósanngjarnt að bera okkur saman við stærsta bókamarkað heims, þar sem metsölubækurnar seljast jafnvel í milljónum (eða tugmilljónum) eintaka, og telja okkur geta boðið viðlíka verð og t.d. einhverjir erlendir bóksalar geta boðið Hungurleikja-seríuna á. Við störfum á örmarkaði, markaði þar sem bókaútgefendur hafa i sögulegu tilliti margir átt afar erfitt í rekstrarlegu tillti.

    Vonandi varpar þetta örlitlu ljósi á málið.

    Kveðja,
    Egill Örn Jóhannsson
    Forlaginu

      • Og afþví að ég hef ekkert annað að gera þá er þetta svona, akkúrat núna:

        1.990
        1.690
        1.690
        1.990
        1.690
        1.990
        2.490
        2.690
        1.990
        2.990
        2.990
        1.990
        1.990
        1.990
        1.990
        1.990
        2.690
        1.790
        1.990
        1.490
        2.790
        2.190
        2.190
        3.990
        3.990
        3.990
        3.990

        Meðaltal: 2416
        Minnsta: 1490
        Mesta: 3990

    • Egill, fólk sem áttar sig á því hvernig tölvur virka kaupir rökin þín ekki. Hvernig væri að birta sundurliðaða kostnaðaráætlun við útgáfu rafbóka eins og ég hef áður beðið þig um? Hvað fer stór hluti í að borga fyrir afritunarvarnir? „Varnir“ sem er barnaleikur að aflæsa og koma í dreifingu. Annað hvort eru útgefendur ekki starfi sínu vaxnir eða gjörsamlega að farast úr græðgi.

      Til minnis: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10150682103766931&set=o.282282745151891&type=3&theater

      • Sæl Helga,

        Kostnaður vegna afritunarvarna er hlutfallslega afar lítill, við útgáfu (raf)bókar.

        Það sem er lykilatriðið, og mér virðist því miður ekki takast að útskýra með nægjanlega skýrum hætti, er að prentkostnaður er jafnan innan við 30% af heildarútgáfukostnaði.

        Og það er því miður Akkilesarhæll okkar útgefenda, sem stendur, að þetta er því miður ekki skýrt. Útgefendur gera umtalsvert meira en að taka við handritum á USB-lyklum og afhenda þá prentsmiðjum til prentunar.

        Frá því að handrit kemur til útgefanda og að útgáfu, fellur til veruleg vinna. Ritstjórn (hjá Forlaginu starfa um 10 ritstjórar í fullu starfi) er veigamikill þáttur. Ég held að ég geti fullyrt að enginn bókaútgefandi gefi út fagurbókmenntir (svo dæmi sé tekið) sem ekki fær ritstjórn. Ritstjórnarþátturinn getur verið mikill, en auðvitað misjafnt eftir ástandi handrits. Öll handrit eru prófarkalesin, allt að þrisvar sinnum, en algengt að þau séu lesin tvisvar. Allar bækur þarf að setja upp (umbrot) og gildir einu um hvort er að ræða rafbók eða prentaða. Alla bækur þurfa að eiga sér kápu, hvort sem um er að ræða rafbók eða prentaða. Fjölmargar bækur eru jafnframt myndskreyttar, hvort sem um er að ræða ljósmyndir eða teikningar sem að allt kostar peninga.

        Og ef að vel á að vera þá þarf að kynna útgáfuna, auglýsa hana og koma í sölu.

        Og í markaðssamfélagi nútímans er markaðskostnaður sífellt vaxandi kostnaðarliður við útgáfu, og eflaust oft töluvert meiri en prentkostnaður.

        Bottomlænið sem sagt það að prentkostnaður getur jafnvel farið undir 20% af heildarkostnaði, en sjaldnast er hann meiri en ca 35%. Það er því óraunhæft að ætla útgefendum að lækka verðið mikið meir en sem því nemur.

        Það er ekki til nein „sundurliðuð kostnaðaráætlun“ eins og þú biður um, því að engin bók er eins, allar krefjast þær misjafnrar vinnu og yfirlegu eða auglýsinga og því kostnaðurinn ákaflega misjafn.

      • Var mikill ritstjórn og prófarkalestur við útgáfuna á Heimsljósi, sem kostar 3990 kr.?

        Annars tók ég 10 mínútur (bókstaflega), rallhálfur á föstudagskvöldi í að útbúa Stjórnarskrána sem epub og mobi (fyrir kindle, sem þú selur ekki). Þú getur fundið það hér: https://www.dropbox.com/sh/ampuputrh63i58v/rGhIB2x1ak

        Ef ég tæki 30 mínútur í viðbót þá væri það vissulegra fallega, en ég nenni því ekki. Þú mátt gefa þetta í bókabúðinni þinni, en ekki selja.

    • Það sem ég er að biðja þig um þegar ég er að biðja um sundurliðun er kostnaður við afritunarvarnir. Mig grunar að forlögin eyði í þær og átti sig ekki á hverskonar húmbúkk þær eru. Og ef prentkostnaður er 20-35% lægri, af hverju skilar það sér ekki í út í verðlagið? Og hvað með Kindle? Og hvað með dreifingarkostnað? Hann hlýtur að lækka talsvert líka.

      • Kostnaður við afritunarvarnir er lítill. Ég er ekki með töluna í kollinum, en ef ég man rétt þá er hann um eða undir 100 krónum per selt eintak, ef það nær því. Jafnvel minna. Bara satt að segja man það ekki í augnablikinu.

        Eðli málsins samkvæmt er enginn prentkostnaður, og dregst því þetta 20-35% að jafnaði frá því sem mætti kalla heildarkostnaður. Við bætist engu að síður kostnaður því það er tiltölulega dýrt að „ePubba“, misjafnt eftir flækjustigi (snúnara þegar bækur eru myndskreyttar og/eða með rastagreinum o.s.frv.).

        Almennt verð á t.d. Fantasíu-bókinni er um 2600 krónur, í bókabúð (sjá t.d. hér http://www.eymundsson.is/nanar/?productid=7f4796f1-8179-4a0f-9ec4-f6010068c216) … en rafbókin kostar 1990 krónur, uþb 30% ódýrari, þannig að þetta er að miklu eða amk einhverju leiti að skila sér í lægri verðum.

  3. Páll er þér ekki að yfirsjást Stjórnarskráin okkar góða, sem kostar 590 krónur? … Ekki að það skipti neinu máli. En ég vek athygli þína á að dýrustu bækurnar eru jafnframt þær sömu og voru að koma út fyrstar, eða undir lok síðasta árs. Verð bókanna hefur farið mjög lækkandi, eins og þú hefur vonandi tekið eftir þegar þú tókst þetta saman.

    • Jú mér er að yfirsjást Stjórnarskráin sem er seld á 590 kr. Ég ætla ekki að reikna tímakaupið sem hefur farið í það að taka það plagg, sem er public domain, og útbúa í rafbók, en ég get sagt þér að það væri tímakaup sem ég væri til í.

      Vandamálið er að bók sem ég kaupi af þér í bókabúð á ég. Ég má fara með hana eins og ég kýs. Ég má nota hana til að einangra húsið mitt. Þú vilt hinsvegar selja mér rafræna útfgáfu af sömu bók, sem allir vita að hefur framleiðslukostnað sem nálgast núll, en ég get ekki gert það við hana sem ég vil. Til þess að lesa hana þarf ég að gangast undir að setja upp forrit frá fyrirtækinu Adobe. Til þess að lesa hana þarf ég að samþykkja skilmála Adobe. Til þess þarf ég að útbúa mér eitthvað sem heitir Adobe ID auðkenni.

    • Að koma Heimsljósi á rafrænt form var meiriháttar mál. Þar voru engin tölvugögn fyrirliggjandi og þurfti að síðuskanna bókina og þá í framhaldinu nauðsynlegt að prófarkalesa. Kostnaður við rafbókargerðina nam fleiri hundruð þúsundum vegna þessa (prófarkalestur einn og sér er verulegur). Ég geri ráð fyrir Forlaginu takist seint að ná inn kostnaði vegna þessa, og myndi litlu breyta hvort bókin kostaði 990 krónur eða 3990.

  4. Keypti 2 pappírsbækur í Bóksölu stúdenta í dag. Samtals kr. 4.100. Þolmörk mín gagnvart rafbókum liggja í 1,500 kr. Ekki krónu umfram það!

  5. Skv. upplýsingum sem ég fékk frá bókaútgefanda er u.þ.b. 35% af verði bókar vegna greiðslna til endursöluaðila, þ.e.a.s. það sem bókaútgefandinn borgar bókabúðum fyrir að höndla með eintökin af bókinni og 5-7% af verðinu skýrast af dreifingarkostnaði. Nú ætti kostnaður við akkúrat þetta nánast að núllast út í rafbókaútgáfu (nema Forlagið hafi hugsað sér að taka formúu fyrir að linka í rafbækur annarra bókaútgefenda á vefsíðu og reka einfalt rukkunarapplett svo menn geti borgað með kreditkorti á vefnum?)

    Þetta tuð um að það sé svo ægilega mikil vinna að setja upp rafbók er bara vitleysa. Ég prófaði að búa til rafbók í Sigil einhvern tíma í vor og það tók mig, ofurkvenlega og tæknifælna konu á sextugsaldri, u.þ.b. tíu mínútur að læra nóg til að konvertera Word í textaská, aflúsa textaskrána, breyta henni í einfalda HTML-skrá og svo í rafbók (epub). Hugsa að allt í allt hafi ég eytt innan við klukkutíma í þessa tilraun, sem tókst ljómandi vel.

    Um daginn hélt einhver bókaútgefandi því fram að rafbókagerð væri meiriháttar flókin af því það þyrfti að breyta texta á umbrotsformati í epub-skrá. Af svörum Egils Arnar hér að ofan má ráða að bókaútgefendum sé núna ljóst að hægt sé að nota texta á fyrra formi, t.d. Word, sem er vitaskuld minna mál. Fæstar af þeim íslensku bókum sem eru nú til sem rafbækur eru myndskreyttar og ég spái því að almennt og yfirleitt verði myndabækur ekki stór hluti af rafbókamarkaði. Svo það er óþarfi að gráta fyrirfram yfir hve erfitt sé að koma myndum á rafbókaform – nær að safna liði og einbeita sér að textum 😉

  6. Bakvísun: Rándýru rafbækurnar -2. kafli « Málbeinið

  7. Bakvísun: Af rándýrri Laxness rafbók | Gneistinn

  8. Ég geri ráð fyrir því að einhver hluti þessa kostnaðar sem fer í að setja bækur á rafrænt form – sem samkvæmt ykkur sem hafið prófað það tekur ekki langan tíma – sé að borga starfsmönnum bókaútgefenda laun. Þeir vanda sig væntanlega við verkið; ekki viljum við lesendur sem borgum fyrir vöruna fá eitthvað drasl (t.d. notaði ég einusinni eitthvað ókeypis forrit til að breyta pdf-skjali í mobi og það duttu út öll „ll“ og bættust við óþarfa bil. Útgefendur eru væntanlega með einhver almennileg forrit sem kosta pening, rétt eins og forritin sem þeir nota fyrir umbrot). Þeir vilja ábyggilega ekki vera að vinna þetta frítt. Nema auðvitað að þeir taki vinnuna með sér heim á kvöldin til að taka þessar 10-50 mínútur (var þetta ekki innan við klukkutími en meira en tíu mínútur?) launalaust, í viðbót við alla þá góðu vinnu sem þeir inna af hendi á sama vinnutíma og annað vinnufært fólk. Segjum sem svo að tíu starfsmenn taki eina bók á kvöldi, þá ætti ekki að taka nema nokkur ár að rafvæða þessar þúsundir bóka sem hafa verið gefnar út á Íslandi í gegnum árin. Alveg ókeypis.

  9. Bakvísun: Rafbækur, ebækur, netskinnur og tölvuskruddur « Rúnatýr

  10. Bakvísun: Rafbækur, skruddur, ebækur og netskinnur | Rúnatýr

  11. Bakvísun: Dýru rafbækurnar eru stundum ókeypis | Málbeinið

  12. Bakvísun: Af rándýrri Laxness rafbók – Óli Gneisti Sóleyjarson

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.