Kostkókamar og útlegð


Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar… segir í gömlu kvæði. Ég fylli þeirra flokk sem vill gjarna búa í hreinu og saurlausu landi og finnst fátt óþægilegra en að sjá skyrhvítan suðurenda ferðamanns við heimreið að snotru sveitabýli eða á bak við umferðarskilti en á þessum skiltum eru oft mikilvægar upplýsingar og því er sjónmengun óþarfi. Að auki hefur þessi skítlega framkoma túrista skapað óþarfa óvild bænda og búaliðs og áður en haglabyssur verða dregnar fram, er einboðið að við tökum höndum saman og bætum úr.

Hér hefur Koskó reynst sannur bjargvættur eins og fyrri daginn (#takkKoskó ) og flutt inn þessi penu ferðaklósett sem smellpassa í venjulegan fjölskyldubíl, kúkúkamper og svipuð farartæki.

Ég er líka fylgjandi upplýsingastefnu og birti meðfylgjandi myndir í uppáhaldshópnum mínum „Keypt í CostCo-myndir og verð“.

Fyrstu birtingunni var eytt snimmhendis eftir stundarfjórðung því myndin af strimlinum var ekki nógu greinileg. Úr því var bætt í töku tvö.

Ég skrapp út að hjóla og á meðan var færslunni eytt. Taka þrjú var umsvifalaust sett inn því meðan ég hjólaði, sá ég ferðamenn hægja sér hist og her, aðallega her og fann svella í mér ábyrgðartilfinningu og samkennd með okkur heimamönnum sem vilja síst amast við saurlífi aðkomufólks, heldur benda á lausnir. Við erum lausnamiðuð þjóð og ég læt mitt ekki eftir liggja. Mér þykir miður að gruna stjórnendur Koskóhópsins um að styðja saurlát ferðamanna og trúi því ekki fyrr en ég tek á því.


Eftir fimmtu tilraun til að sýna ábyrgð og sinna upplýsingaskyldu minni er nú svo komið að stjórnendur hafa ákveðið að víkja mér úr hópnum og bannfæra mig að því marki að ég sé ekki lengur efni og innlegg hans. Þetta er miður því ég treysti á hópinn til að veita mér góðar upplýsingar og stuðla þannig að verðvitund minni og heilbrigðum viðskiptaháttum. Mér líður eins og Gunnari á Hlíðarenda sem var gert að víkja úr landi en honum þótti fögur hlíðin, eins og mér þykir framhliðin á Koskó, og helst hefði ég viljað fara hvergi. En þessu ræður lögréttan á Sauðárkróki.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.