Í beinni í strætó

Fyrir hartnær fjórum árum var ég beðinn að hætta að hlusta á Útvarp Sögu eða Stútvarpið, eins og gárungarnir kalla stöðina, því stundum fór ekki á milli mála þegar viðkomandi stjórnandi hafði fengið sér í aðra tána og drafaði í símatímanum. Það er ekki grín gerandi að áfengisvanda fólks og ég efa ekki að Stútvarpið hafi fengið viðeigandi meðferð. En það er önnur saga.

Á föstudaginn tók ég að vanda strætó í skólann, settist inn í vagninn stundarfjórðung fyrir ellefu og fékk sæti fyrir miðjum vagni þar sem ég gat horft fram. Í öfuga sætinu sat glaðlegur miðaldra maður sem horfði brosandi í kringum sig, ánægður með lífið og tilveruna og talaði svo hátt að heyrðist um allan vagninn. Fyrst hélt ég að hann væri að tala í síma og strætósamtöl í síma eru aldrei löng. En þessi ágæti Hafnfirðíngur hafði orðið í samtali sínu, talaði bæði á útsogi og innsogi og viðmælandinn komst aldrei að fyrr en í Kópavogi. Þá varð 15 sekúndna þögn en svo héldu einræðurnar áfram. Samferðafólk hans fékk að heyra að Guðni forseti hefði skitið upp á bak í einhverju máli og væri heilt yfir ómögulegur forseti og eitthvað var minnst á Guðmund Franklín. Einnig þótti honum forsetafrúin vondur pappír og dylgjaði um fjárplógsstarfsemi hennar og athyglisþörf. Síðan vippaði hann sér fimlega yfir í útlendinga, hælisleitendur og allt soleis fólk sem væri aðallega óalandi og óferjandi og baggi á okkur hinum. Samherjamálið var tekið fyrir á Miklubrautinni og við Gömlu Hringbraut byrjaði hann að lýsa hvar vagninn væri staddur. Svo þurfti ég að fara úr en langaði svolítið að halda áfram, bara til að hlusta.

Sá sem fær að tala svotil linnulaust í 25 mínútur á sömu hneykslisnótunum og leyfir viðmælanda sínum ekki að komast að, á enga vini með nægilegt umburðarlyndi fyrir langlokur. Hans eina útrás er að hringja í símatímann á Útvarpi Sögu.

Ég hef heyrt farþega biðja bílstjóra að skipta um stöð eða lækka, þegar ÚS glymur um vagninn. Næsta skref verður að biðja farþega að hringja ekki í símatímann og halda einræður.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.