Strámenn Íslands

Sumt þarf að rifja upp reglulega til að það gleymist ekki. Þetta á við um grundvallarhugtök eins og jafnrétti, frelsi, bræðralag, sósíalisma, femínisma og málefnalega umræðu. Þegar rökin þrýtur er gripið til útúrsnúninga og strámanna. Síðastnefnda fyrirbærið hefur verið mikið á ferðinni undanfarnar vikur hjá ákveðnum hópi rökþrota dæmaleysingja.

„…. Strámaður er fyrirbæri sem þekkt er úr rök- eða mælskulist (ég nota hér orðið list lauslega). Í stað þess að ræða málefnalega og í góðri trú um efni málsins beita menn þeirri brellu að búa til annað umræðuefni – strámann – og reyna að setja hann í staðinn. Hráefni strámannsins getur verið fjölbreytt og verður best skilgreint neikvætt: allt annað en raunverulegt efni og kjarni málsins. Ástæða þessa er vitaskuld sú að menn vita að þeir hafa slæman málstað að verja og vilja að eitthvað annað og viðráðanlegra komi þar í staðinn, helst af öllu þeim í hag.

Efni í strámanninn velja menn af kostgæfni. Fyrir hverja staðhæfingu sem honum er lögð í munn eiga þeir fyrirfram sérsniðin skotfæri: meitluð rök sem falla að hverri slíkri staðhæfingu, núlla hana út og kveða óyggjandi í kútinn. Strámenn geta tekið á sig ýmsar myndir. Þeir geta verið byggðir upp úr einhverju sem tengist efni málsins ekki á nokkurn hátt. Þá eru þeir einfaldlega tilraun til að skipta um umræðuefni, til að setja umræðuna út af sporinu. En strámenn geta líka verið sýnu skuggalegri fyrirbæri. Það er þegar strámenn eru notaðir við spuna á sjálfu umræðuefninu, þegar reynt er að snúa því á hvolf og breiða yfir eða myrkva kjarna þess með öllum tiltækum ráðum. Þá verða strámenn liður í orwellískri viðleitni til að hafa áhrif á söguna, á það sem skrár koma til með að geyma um atburði líðandi stundar. Bókstaflega reyna menn þannig með notkun á strámanni að spinna aðra sögu en þá sem raunverulega gerðist.

Þeir sem vilja byggja strámenn af síðari sortinni þyrla af ásettu ráði upp moldviðri af ósannindum, útúrsnúningi, ýkjum, hálfsannindum, villandi túlkunum og, síðast en ekki síst, órökstuddum ásökunum á hendur þeim sem þeir telja andstæðinga sína. Þessar ásakanir eru yfirleitt lævíslega samdar: nægilega óljósar til að geta falið í sér fjarvistarsönnun fyrir smiðinn en á hinn bóginn má ráða fullvel af þeim hverja þær eiga að hitta fyrir. Úr moldviðrinu hrifsa smiðirnir hálmstrá sín, gera úr þeim fléttur sínar sem þeir tjasla saman og móta þannig strámanninn. Loks drösla þeir sköpunarverki sínu á fætur. Þeir tylla því upp á áberandi stað og hrópa á athygli fjöldans – „komið og sjáið’ann!“ og kannski eitthvað um afhjúpun og makleg málagjöld. Síðan plaffa þeir strámanninn niður. Þeir sýna enga miskunn, tefla öllu sínum vopnum fram.

Svo, á meðan hvort tveggja púðurreykskýið og mannfjöldinn dreifist smám saman og þynnist út, bíður smiður og böðull strámannsins milli vonar og ótta. Hann spyr sig: mun fólk gína við agninu, sættir það sig við þessa aftöku sem lyktir hins upphaflega umræðuefnis? Kemst ég upp með þetta?“

Svona ritar Finnur Vilhjálmsson. Greinin er frá 2008. Þetta er lengsta tilvitnun sem ég hef notað í skrifum mínum en vel þess virði að fylla dálk dagsins.

Að þekkja strámann er góð skemmtun…

4 athugasemdir við “Strámenn Íslands

  1. Bakvísun: » Hugmyndafræðileg afstæðishyggja Patentlausn

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.