Íþróttamaður ársins 2012

Margir hafa beðið spenntir eftir umræðu um heimsmeistaratitil Annie Mist í fjölhreysti eða krossfit, eins og Jesús og lærisveinarnir kölluðu þetta sport og að hún verðskuldi sæmdarheitið íþróttamaður ársins. Það er álíka áhugavert og að lesa umræðuhala á DV, enda óþarfi að rifja upp allt sem sagt var á liðnu hausti um þetta mál. Einkum vegna þess að vitað er hver verður fyrir valinu. Það var ljóst í vor. Íþróttamaður ársins er karlkyns, undir þrítugu, stundar boltaíþrótt, er á háum launum hjá erlendu liði og situr ýmist á varamannabekk eða ekki.  Hann er orðaður við stórlið einu sinni í mánuði eða oftar. Hann leikur ekki í sænsku fjórðu deildinni með Krummaskud United en var um tíma í láni hjá Lofoten Boldklub.

Að öllu gamni slepptu þá fær Gylfi Sigurðsson eldhúskollinn í janúarbyrjun 2013 fyrir afrek sín á árinu, að vísu ekki með landsliðinu, því það er svo neðarlega á FIFA-listanum að það sést ekki í besta kíki. Þótt Gylfi verði á bekknum hjá nýja félaginu sínu til jóla, breytir það engu. Þetta er bara svona og ég nenni ekki einu sinni að ræða það við köttinn.

3 athugasemdir við “Íþróttamaður ársins 2012

  1. Hef einmitt verið að velta þessu Crossfit orði fyrir mér.

    Af hverju ekki fjölfimi eða fjölhreysti. Getur þú ekki fest þetta niður?

  2. Crossfit er náttúrulega vörumerki og þessvegna heita öll „opinber“ mót í þessu Crossfit, samkvæmt reglum Crossfit Inc. En ég tek undir hvert orð í þessum bloggpistli Gísli, það er staðreynd að af einhverjum furðulegum ástæðum velja 22 íþróttafréttamann íþróttamann ársins fyrir hönd ÍSÍ (og það er alveg magnað að ÍSÍ sé ekki fært um að útnefna hann sjálft) og að konur vinna ekki þennan titil og að oftast er það boltaíþróttamaður sem vinnur, í ár Gylfi.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.