Framliðnir tala heim

Kynni mín af dansk-íslenska frumkvöðlinum sem heldur miðilsfundi á Facebook, hafa leitt ýmislegt fróðlegt í ljós. Ég hef fullan skilning á löngun fólks að ná sambandi við látna ættingja og hef samúð með syrgjendum, en lítinn bifur á þeim sem vilja hafa viðkvæmt fólk að féþúfu. Þótt miðill sé sannfærður um eigin hæfileika og fordæmi alla sem efast um þá, finnst mér ekki til of mikils mælst að fá skýringar á nokkrum grundvallaratriðum í fasi og framkomu framliðinna sem birtast miðlinum. Hér er einkum horft til dönsku útgáfunnar sem hefur birst mér og fleirum á fésbók tvo sunnudaga í apríl.

1. Hinn framliðni kynnir sig aldrei með nafni.Fólk er náttúrulega skilríkjalaust hinum megin en þar sem framliðnir muna smáatriði með myndir á vegg og þrif í skápnum á ganginum, gætu þeir alveg ropað upp úr sér skírnarnafni sínu eða nafni ættingja, fyrst sambandslöngunin er svona mikil. Góður miðill á að vera eins og dyravörður í Sigtúni forðum daga, hvessa brýrnar á náinn og heimta nafnskírteini.

2. Flestir sem komu fram á fyrsta fundinum höfðu dáið á undanförnu hálfu ári, í slysi eða álíka uppákomu sem hafði ratað í fréttir. Merkileg tilviljun þar sem1900 manns deyja árlega, flestir úr elli eða sjúkdómum og halda mætti að þeir væru álíka æstir í að ná sambandi. En þeir eru heldur ekki eins gúgltækir og fórnarlömb slysanna.

3. Með íslenska miðlinum starfa tvær danskar hjálparmiðlur sem eiga auðvelt með að ná sambandi við framliðna Íslendinga, sem virðast hafa lært betri dönsku í handanheimum en í grunnskóla hér heima. Hér fá menn stúdentspróf út á að geta sagt hátt og snjallt „Jeg hedder Flemming“ þótt þeir heiti ekki Flemming. Dönskumælandi framliðinn ætti alla vega að geta kynnt sig sem Flemming þótt hann heiti það ekki.

Í viðtali við Vísi segir Þín Spákonu Miðill að í framtíðinni verði miðilsfundir á fésbók. Ef fyrirkomulagið verður svona áfram sé ég sóknarfæri fyrir fólk með Moggaáskrift og lágmarkskunnáttu í leit á timarit.is. Ég gæti haldið svona miðilsfundi vikulega, ef ég nennti. En ég er lítið fyrir að ljúga að fólki sem hefur misst ástvini sína.

Þessi mynd er af uppáhaldsmiðlinum mínum. Hann nær sambandi við reiðhjól.

Dúddi

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.