„Hreðjalausar kuntur með lítinn heila“

Í byrjun þessa mánaðar gekk ég í hópinn Betra Ísland-forsetaframboð Guðmundar Franklín á Facebook. Fyrir allar kosningar lít ég á mig sem atkvæði í leit að flokki eða frambjóðanda og vildi því kynna mér málstað og áhersluþætti beggja frambjóðendanna. Ég varð fljótt þess áskynja í Betra Ísland að spurningar mínar varðandi stóryrtar fullyrðingar einstakra meðlima voru illa séðar og einkum þegar óskað var eftir rökstuðningi og heimildum fyrir þeim. Ég hafði einlægan áhuga á málefnalegum umræðum um hvort sitjandi forseti væri ESB-sinni, stuðningsmaður barnaníðinga, handbendi spillingarafla, landráðamaður, á móti fullveldinu, væri ekki stoltur Íslendingur, hugsanlega glóbalisti (sem virðist vera skammaryrði) og orkupakkamálið. Sitjandi forseti er að sögn fylgjandi því að selja auðlindir okkar, þar á meðal kalda vatnið, til Brussel og þar að auki telur fylgisfólk Franklíns að forsetafrúin reki fyrirtæki þar sem allt er vaðandi í undanskotum, bruðli, bókhaldsspillingu og misferli. En til þess kom ekki því eftir þriggja daga vist í hópnum þar sem enginn vildi orðaskipti við mig á málefnalegum grundvelli, var mér eytt úr hópnum og útilokaður frá að finna hann á FB.

Úr umræðuþræði í FHF, snemma í júní.

Eftir það stofnaði ég myndasafnið Fólkið hans Franklíns (skammstafað FHF). Vilji fólk skoða herlegheitin er nóg að smella á tengilinn. Í safninu eru rúmlega 60 skjáskot af ummælum FHF. Nokkur þeirra hafði ég með mér úr hópnum en hin hafa aðrir í hópnum sent mér og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Að vísu hefur mörgum þeirra þegar verið eytt eins og mér, af því að þau hafa vogað sér að gera athugasemdir sem falla ekki í kramið. Fúkyrði og persónuníð er hins vegar látið óátalið.

Í hópnum eru núna tæp 2200. Mesti lækjafjöldi við eina færslu hefur náð 160. Segja má að raunverulegir fylgismenn GFJ þarna séu um 200. Hin 1900 hundruð sem eru þarna til að fylgjast með, á sama hátt og fylgst er með náttúruhamförum í beinni útsendingu, hafa haft vit á að láta ekkert á sér bera.

Athugasemdir við grein á Vísi um frammistöðu GFH í Kastljósinu. Ættfræðingar geta skemmt sér við að finna bróður Sigurlaugar Þuríðar. Hann er alger andstæða hennar en öllu þekktari.

Til að gæta sanngirni, þá getur Guðmundur Franklín komið vel fyrir, þegar það hentar honum. Hann er ábúðarfullur, skýrmæltur og jafnvel forsetalegur á góðum degi. Þar með eru kostir hans upp taldir. Í hvert sinn sem hann tjáir sig á sjónvarpsskjánum hefur hann tapað fylgi, einkum eftir alræmdan þátt á Stöð 2, þar sem alþýðu manna ofbauð. Í Kastljósinu í gær reyndi hann að hafa gamanmál á hraðbergi, hneykslaði engan, og spyrjandi þáttarins leyfði honum að tala að vild. Það þarf ekki að hjálpa GFJ að skjóta sig í fótinn. Hann gerir það hjálparlaust.

Ragnhild Hansen er Virk Í Athugasemdum. Hún var lengi vel orðljótasti meðlimur FHF. Síðan kom Sigurlaug Þuríður sterk inn og hefur ekki sparað sig.

FHF, eða Fólkið hans Franklíns, er rannsóknarefni. Það er duglegt að ota tota sínum utan sinna vébanda en er sama marki brennt og GFJ. Fúkyrði þess og stóryrði laða fáa til fylgis við Franklín og alltaf þegar efna á til málefnalegra skoðanaskipta við það, hrekkur það í baklás, blokkerar viðkomandi eða lætur sig hverfa. Best líður því meðal jafningja í hópnum sínum á FB þar sem allir eru eins og kindurnar í Animal Farm.

Á mánudaginn lauk kosningabaráttunni. Þá var ekkert eftir. GFJ búinn að fara hringinn og birta myndir af umferðarskiltum og landslagi, örfáar af kjósendum og eina af hesti. Núna eru tveir dagar eftir og brimróðurinn löngu hafinn hjá GFJ. Hann veit að hann nær ekki landi og þrautalendingin verður að búa til bombu í þættinum á RÚV á föstudagskvöldið. Kunnugir telja að lokaskotið verði á forsetafrúna. En þá fellur fylgið líka niður í pilsnerstyrkleika.

Mínum þætti í þessari mannfræðirannsókn er lokið. Þetta var fyndið í drjúgan tíma. Nú er aðeins bjánahrollurinn eftir.

Ein athugasemd við “„Hreðjalausar kuntur með lítinn heila“

  1. Bakvísun: „Hreðjalausar kuntur með lítinn heila“ — Málbeinið | Mon site officiel / My official website

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.