Veraumkunin og Skerjafjarðarskáldið

Veraumkun á sjer samheitið „hannúð“ og er mjer ofarlega í huga í dag eftir lestur á ýmsum stóryrðum um þá ákvörðun Endurmenntunar HÍ að segja upp námskeiðskennaranum Kristjáni Hreinssyni, sem þar hefur starfað í fjóra vetur. Þetta þykir mörgum jaðra við hjeraðsbrest eins og öllu betra skáld en KH orti um á sínum tíma en aðrir heyra lágværan smell í sprekinu.

Stóryrði eins og „ritskoðun“ og „ofsóknir gegn tjáningarfrelsinu“ sjást víða hjá VÍA-fólkinu en eiga tæplega við í þessu tilviki, nema KH hafi ætlað að miðla umdeildum skoðunum sínum á námskeiðunum. Eftir sem áður nýtur hann algers frelsis til að tjá sig á Fjesbókinni þar sem hann á hundruð viðhlæjenda og aðdáenda og í hópnum „Ljóðin um veginn“ (FJesbók) gengur maður undir manns hönd að lofa allt sem frá skáldinu kemur. Jeg er ekki í þeirra hópi því um þessar mundir eru 10 ár síðan Skáldið blokkaði mig svo rækilega á Fjesbók að minnstu munaði að jeg gleymdi tilveru þess. En maður með jafnmikla athygliþörf og KH finnur alltaf leið til að koma sjer á framfæri. Hjer útskýrir hann „brottreksturinn“.

„Ég var rekinn úr starfi kennara við Endurmenntun Háskóla Íslands vegna ummæla minna. Í umræðu vegna ummæla minna, sem reyndar fjalla um umræðu á villigötum, er ég sakaður um að ráðast gegn transfólki. En ef grannt er skoðað þá hef ég ekki ráðist að neinum sérstökum hóp, ég hef ráðist gegn umræðuhefð. Ég hef ekki ráðist að neinum einstaklingi. Þvert á móti er ég að reyna að bæta skilning fólks á nokkrum staðreyndum.“

Nú er einboðið að líta á þessar staðreyndir sem Skáldið telur fólk ekki skilja nógu vel að þess mati.

Mín kynni af Skáldinu eru ekki mikil. Við sátum eitt sinn í pallborði á hagyrðingakvöldi þar sem Skáldið hafði aðallega orðið en minni spámenn komust lítt að. Mjer fannst það ágætt því við hlið mjer sat skemmtileg fjesbókarvinkona, prýðilega hagmælt, og vel fór á með okkur. Um sumarið varð þessi uppákoma sem varð að blaðagrein og ef fólk er ekki orðið lúið af lestri, má vel smella á slóðina. En uppákoman kenndi mjer að Skáldið ritskoðar miskunnarlaust allt fólk með skoðanir sem eru því ekki að skapi og myndi seint kalla það ofsóknir gegn tjáningarfrelsi viðkomandi eða hömlur þar á. Við sem erum í blokkinni hans, erum núna vel á annað hundrað, og höfum ekki kvartað hástöfum og talað um málsókn og kærur, eins og nú er lenskan í Skerjafirði.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.