„Að standa með strákum“

Jeg smelli enn á greinar um skólakerfið því 22 ára kennsluferill forðum daga situr í mjer eins og ókreistanlegur fílapensill. Þessi stutti pistill Sigurvins Jónssonar hefur smellubeitu í fyrirsögn því þótt almennt sje einboðið að vernda hagsmuni barna og veita þeim stuðning, virðist halla meira á drengi en stúlkur og því verða svona pistlar til.

Þarna eru skemmtilegar lýsingar á uppátækjum sona hans sem eru greinilega fjörmiklir eins og títt er um börn á þeirra aldri. Jeg hefði hlegið að hobbitatánum og vampírubitinu og ekki látið krot í stílabækur ergja mig. Það er lika hægt að taka mið af hreyfiþörf og ókyrrð í skólastofu án þess að boða til fundar með foreldrum um styrkleika og veikleika.  En vatnaskilin eru annars eðlis. Þetta segir Sigurvin:

„Í lok 2. bekkjar urðu vatnaskil í samskiptum okkar við skólann og á afstöðu minni í garð þess hlutverks sem ég hef sem foreldri drengs í grunnskóla.

Atvikið var í raun einfalt. Sonur minn hafði notið þess svo mjög að vera í skólasundi að hann vildi ekki koma upp úr. Því meira sem hann var rekinn upp úr, því meira forhertist hann í leik sínum og á endanum stóð hópur fullorðinna starfsmanna á bakkanum að hrópa á drenginn á meðan eldri bekkur beið í klefanum að komast ofan í. Skólastjórinn hringdi í mig og ég kom úr vinnu, hentist ofan í laugina með símann í vasanum, tók drenginn upp úr og fór með hann heim að þurrka barn, föður og síma.“

Við fyrsta lestur sjer lesandinn sjálfsmiðaðan, óhlýðinn dreng og tillitslausan, sem hunsar fyrirmæli, lætur næsta hóp á leið í sundkennslu bíða átekta, jafnvel þarf skólarútan líka að bíða og öll starfsemi viðkomandi laugar virðist hafa raskast því hópur starfsmanna er í því að láta eitt barn gegna. Kennarinn telur sig ekki ráða við aðstæður, ráðgast við skólastjóra, sem hringir í föður, sem kemur úr vinnu og dembir sjer oní laugina til að sækja snáðann.

Hvað hefði jeg gert? Nokkrir möguleikar eru í þessari stöðu:

  1. Láta drenginn vera áfram í lauginni, fyrst honum fannst svona gaman og semja við sundkennarann sem tekur við næsta hóp. Eitt barn til eða frá í kennslulaug breytir engu og hann er orðinn buslfær. Þegar stráksi er orðinn þreyttur, fer hann upp úr og klæðir sig og fær far með næstu rútu í skólann eða röltir (fer eftir vegalengd). Fyrir næsta sundtíma verður þetta rætt í þaula í von um að piltur skilji grundvallarreglurnar.
  2. Starfsmaður fer oní laugina, tekur drenginn og fer með hann í búningsklefa til þurrkunar og fata. Hugsanlega spriklar hann soldið meðan á þessu stendur en það flokkast varla undir ofbeldi að hemja hann á leið frá laug að klefa. Ef barn virðist vera að drukkna í lauginni, þarf starfsmaður hvort sem er að fara oní og sækja það.
  3. Hringt í foreldri og óskað eftir aðstoð eða ráðum hvað gera skuli í svona stöðu. Hugsanlega fellst foreldri á leið 1 eða 2.
  4. Skólastjóri hringir í foreldri sem kemur og fær drenginn til að gegna. Að demba sjer oní með síma í vasanum er óþarfi því þetta var ekki neyðartilfelli. En í tilvikum þar sem barn getur ekki farið eftir einföldustu fyrirmælum og raskar skólastarfi þannig að það bitni á hóp, verður að hafa samráð við foreldri.
  5. Leið Sigurvins sem tekur barnið úr skólanum. Þetta má túlka: „Barnið mitt gegnir ekki einföldum fyrirmælum. Þetta er greinilega vandamál skólans sem skilur ekki styrkleika barnsins og því er einboðið að færa barnið í skóla sem skilur það betur og tekur tillit til stífni, sjálfmiðun og tillitsleysi.“

Það ætti að vera regla að fjalla ekki um börnin sín með þessum hætti á opinberum vettvangi. Fyrr eða síðar lesa þau svona færslur, skoða myndir, o.s.frv. En jeg sje ekki vandamálið í þessari stöðu. Jeg hefði valið fyrsta eða annan valkostinn. Því eins og þekkt bílaumboð auglýsir: Engin vandamál, bara lausnir.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.