Stóra morgunógleðimálið

Myndin er tekin skömmu eftir að bíll ók yfir hatt Katrínar og það skýrir stórfelldan halla á honum,

Myndin er tekin skömmu eftir að bíll ók yfir hatt Katrínar og það skýrir stórfelldan halla á honum,

Rétt er að byrja á þeim fyrirvara að ég hef samúð með morgunóglöðu fólki svona heilt yfir. En þegar ríkissjónvarpið leggur álíka mikið undir þessa frétt og af hrunverjum og fjársvikurum (oft sama pakkið) er greinilegt að þetta er þjóðþrifamál sem við eigum að koma okkur upp áhuga á. Annars verður því troðið í mann eins og fyllingu í kalkún.  Ritstjórnin hefur vakað yfir fjölmiðlum eins og köttur við músarholu og fært helstu viðburði í rím og stuðla.

Morgunógleði Katrínar frá Miðtúni kom einkum fram við árbítinn í Bökkinghamhöll en þar jetur konungsfjölskyldan jafnan saman í rauðabítið og ræðir brýnustu hirðmálin. Sætaskipan er í föstum skorðum en nokkrar tilfærslur urðu á Katrínu meðan ástand hennar var enn á þróunarstigi.

Þunguð frú í þjáning lifir
en þykir skorta lotningu
því flesta morgna ælir yfir
Elísabetu drottningu.

Árbítinn má ekki sjá
yfir diska hinna gusar
Hún um daginn ældi á
egg og beikon Filippusar.

Varla hennar þyngist þjó
þykir líðan frekar „queasy“
Í hálsmálið á Harrý spjó
hafragraut og ufsalýsi.

Við svo búið mátti ekki standa og fyrsta úrræðið var að láta Katrínu borða úti. Við það varð andrúmsloftið betra yfir borðum í öllum skilningi þess orðs en Katrín undi illa við sinn hlut á hlaðinu.

Talið er að sjatni sút
saman fagnar hirðin öll
því nú er Kata komin út
á kollu fyrir utan höll.

Síðan var hún flutt á sjúkrahús og var því slegið upp í netmiðlum hér heima að James bróðir hennar og hinn botnfagra Pippa systir, hafi  lagt þangað leið sína. Það sem ekki kom fram, var að þau kláruðu næturdjamm sitt með þessu og hafði James komist yfir kippu af Egils hjá „góðum“ leigubílstjóra. Þar með var einboðið að fá sér.

Í jólahug með jólafas
James hélt á kippu
Katrín fékk sér Gull í glas
og gubbaði á Pippu.

Þau systkinin kvöddu Katrínu við svo búið og fóru heim að þrífa sig. Hún var alin á fljótandi fæði þann dag og skilaði því jafnharðan, aðallega þegar stofugangur fór fram.

Lösnum veitir litla fró
lapþunnt seyði í matinn.
Yfirlækninn yfir spjó
einnig kandídatinn.

Starfsmannavelta er allnokkur á heilbrigðisstofnunum og bárust fregnir af því í gærkvöldi að stóra morgunógleðimálið hefði dregið dilk á eftir sér á deild Katrínar.

Úrlausn þykir algert „must“
ill er þrautin kviðar
Áðan sögðu upp með gust
átta sjúkraliðar.

Nú er sóttarhlé og er Katrín komin heim. Líðan hennar er eftir atvikum.  Hún safnar kröftum fyrir aðventuboðið mikla þar sem íslenskur matur verður fram borinn í boði Ólafs Ragnars eins og undanfarin ár, enda stendur á pakkanum „Júeintsínnoþingjet“.

Um bata hefur vaknað von
viðrað sig nú getur.
Kata er í Kensington
Kötu líður betur.

Aðventuna allir þrá
aðallega Kata.
Bráðum verður borðum á
bræddur mör og skata.

Lyktin yfir liggur kæst
lifnar óðagotið.
Hirðin í sig hakkar æst
hamsana og flotið.

Fer um ganga fituský
fyllir maga skata.
Enginn tekur eftir því
þó æli stundum Kata.

Auglýsingar

8 athugasemdir við “Stóra morgunógleðimálið

  1. Alvarleg morgunógleði (Hyperemesis Gravidarum) er alvarlegur sjúkdómur. Hann veldur ofþornun og oft lifrarskemmdum. Sjúkdómurinn er þekkt dánarorsök í þriðja heiminum. Talið er að um 1 af hverjum 300 þjáist af þessu og líklega helmingi færri fái alvarlegustu tilfellin, eins og í dæmi Katrínar. En þér finnst þetta náttúrlega bara eitthvað til að gera grín að.

    • Ég þekki fólk með alvarlega sjúkdóma sem hefur skopskyn til að létta sér lífið með því að hafa þá í flimtingum. Þetta er bara ein hlið á umfjöllun um frægt fólk og til þess gerð að létta fólki lund.

  2. Dinnernum svo daman spjó
    á krásum hlaðna dúka
    vesæl sagði veik og sljó
    ég vild’eg þyrfti að kúka.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s