Kvittað, lækað og deilt

Á fésbókinni á að vera auðvelt að leiða hjá sér vinsældabetl og auglýsingajarm fyrirtækja og lífsstílssíðna sem felst í kvitti, læki og deilingu.  Að vísu hélt fólk á tímabili að Súkkerbergur hefði bannað svoleiðis því hann vill eiga sinn einkarétt á auglýsingum á heimavellinum en það kemur ekki í veg fyrir að heitið sé raftækjum, peningum, mat eða einhverju drasli gegn KLD  á síðu eða mynd. Ég geri þetta aldrei en kemst ekki hjá því að sjá þegar vongóðir vinir mínir taka þátt í auglýsingaherferð og selja sig með krosslagða fingur. Hver vill annars ekki eignast spjaldtölvu eða sjónvarp fyrirhafnarlítið? Það er ekki eins og maður þurfi að líma auglýsinguna utan á húsið sitt.

Ég tók eftir einu svona æði í fyrradag sem hafði fengið yfir 1000 KLD. KLD er annars mælikvarði sem Staðlaráð á eftir að viðurkenna.  Oft kemur fram að dregið sé úr hópi þeirra sem hafa látið til leiðast og svo var í þetta sinn. Af einskærri forvitni hringdi ég í viðkomandi fyrirtæki og spurði: „Hvernig farið þið að því að draga? “ Svaramaður fyrirtækisins hváði og skildi mig ekki. Ég spurði þá hvort fésbókin yrði fínkembd og nöfn allra þúsund yrðu rituð á miða með tilheyrandi upplýsingum og svo dregið úr hatti að viðstöddum fulltrúa sýslumanns. „Ertu að gera at í mér“ spurði þá svaramaðurinn eftir langa þögn. Samtalinu lauk án þess að ég fengi nánari skýringu.

Óljúgfróðir sögðu að Karen Millen leikurinn fyrir jólin í fyrra hefði fengið 2500 KLD. Þar átti að draga úr hópi þeirra sem það gerðu. Þá hefði þurft að ráða nokkra starfsmenn til að skrá  á miða og undirbúa dráttinn. Enginn hirti reyndar um að athuga það. Allir með starfhæfa tölvumús smelltu, lækuðu, deildu og lofsungu í von um að eignast kápu eða eitthvað álíka.  Ég veit ekki hvernig þessi uppákoma endaði en minnir þó að einhverjir hafi fjasað sig sveitta. Ég nenni ekki að hringja í Karenu og ræða þetta nema ég fái að tala við hana sjálfa. Hún hefur komið hingað til lands en hvort hún er Íslandsvinur, skal ósagt látið.

Þeir sem læka eða deila þessari færslu eiga von á óvæntum glaðningi frá mér á aðfangadag. Dregið verður við hátíðlega athöfn með aðstoð fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði.

18 athugasemdir við “Kvittað, lækað og deilt

  1. tja það kemur væntanlega tilkynning í hvert sinn sem mynd er deilt allavega þannig að tæpast þarf að þræða allt smettið. Hins vegar er þetta óttalega leiðinlegt fyrirbæri, ég geri iðulega í því að tilkynna svona myndir.

  2. Nú hafa 38 deilt færslunni en ég sé bara deilingar hjá FB-vinum mínum. Mér er því vandi á höndum þegar kemur að útdrættinum. Hvernig finn ég „ó“vini mína?

  3. Ég skal viðurkenna að ég tók þátt í kápuleiknum ógurlega, við lítinn fögnuð sumra vina minna. En í seinni tíð hef ég aðallega dundað mér við það að benda fyrirtækjum á að þessir leikir séu óleyfilegir samkvæmt reglum Facebook og stundum kært þá til Fb. Sé ekki að það hafi haft nein áhrif.

  4. Miðað við hvað KLD fer mikið í taugarnar á framkvæmdastjóra Staðlaráðs þá hef ég ekki nokkra trú á að KLD mælikvarðinn verði tekinn til umfjöllunar á þeim vettvangi…..

  5. Ég er að verða hugsjúk út af öllum þessum tækifærum sem ég missi af á hverjum degi því ég fæ mig ekki til að læka og deila. Ég ætla ekki að læka á þig Gísli, ég er nefnilega í Hördígördí og kemst ekki til þín á aðfangadag.

  6. Snilld! Deildi og á von á einhverjum geggjuðum glaðningi frá þér aðfangadagskvöld.
    Ég er á Akureyri, verður það nokkuð vandamál? Er ekki allt landið í „pottinum“?

  7. Haha ég deili ekki þessari síðu til að fá hvorki eitt né neitt. Finnst bara þessir lækleikir fáránlegir og hef oft verið að hugsa um að skrifa nei takk en þá er ég búin að kommenta á viðkomandi og ÞAÐ vil ég ekki. Takk fyrir flottan stubb

  8. Bakvísun: Kvittað, lækað og deilt -Taka 2 | Málbeinið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.